Home / Fréttir / Svíar opna 17 herstöðvar fyrir Bandaríkjaher

Svíar opna 17 herstöðvar fyrir Bandaríkjaher

Varnarmálaráðherrarnie Lloyd Austin og Pål Jonsson.

Bandaríkjaher fær heimild til hindrunarlausra afnota af 17 herstöðvum í Svíþjóð verði samningur um varnarsamstarf Svía og Bandaríkjamanna samþykktur af sænska þinginu. Varnarmálaráðherrar landanna, Lloyd Austin og Pål Jonson, rituðu undir samninginn í varnarmálaráðuneytinu Washington þriðjudaginn 5. desember 2023.

Meðal þessara 17 herstöðva eru flotahöfnin Berga í skerjagarði Stokkhólms, flugherstöðin í Luleå í Norður-Svíþjóð og herstöðin á Gotlandi sem var endurreist nýlega.

Samkvæmt samningnum fær Bandaríkjaher meðal annars heimild til að flytja menn úr liði sínu til sænsku herstöðvanna, stunda æfingar, lenda flugvélum eða senda skip til hafna til að fá eldsneyti fyrir utan að geyma þar hergögn.

Pål Jonson sagði við sænska ríkissjónvarpið SVT að í samningnum fælist ekki að Bandaríkjaher nýtti sér aðstöðu í öllum herstöðvunum 17 en rætt hefði verið hvar hann teldi mikilvægast að koma fyrir hergögnum.

SVT segir að þessi samningur Svía sé svipaður og önnur norræn ríki hafi gert við Bandaríkjastjórn. Þau hafi einnig heimilað Bandaríkjaher að geyma vopn og skotfæri í herstöðvunum. Bandaríkjamenn hafi „einir forræði“ yfir hergögnunum en verði fyrir fram að upplýsa sænsk yfirvöld um hvers eðlis þau séu.

SVT spurði Jonson hvort kjarnavopn kæmu til álita á sænsku landi.

„Nei, afstaða Svía er öllum kunn. Við sjáum enga þörf eða tilgang felast í kjarnavopnum á landi okkar og Bandaríkjamenn hafa einnig sagt að þeir virði það sjónarmið,“ svaraði sænski varnarmálaráðherrann.

Hann segir að samningurinn auðveldi Bandaríkjamönnum að veita Svíum stuðning skapist hættuástand eða komi til hernaðarátaka. Samningurinn stuðli auk þess að stöðugleika í allri Norður-Evrópu þegar hann taki gildi.

SVT segir að í augum Bandaríkjamanna snúist samningurinn um að þeir fái aðgang að hernaðarlega mikilvægum stöðum við Eystrasalt og á norðurslóðum.

„Að eiga Svía sem vini er gott en enn þá betra er að eiga þá sem bandamenn,“ sagði Lloyd Austin varnarmálaráðherra við undirritun samningsins.

Til að samningurinn taki gildi þurfa þrír fjórðu þingmanna á sænska þinginu að samþykkja hann. Einnig þarf að breyta ýmsum sænskum lögum vegna gildistöku samningsins. Pål Jonsson vonar að samningurinn taki gildi á árinu 2024.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …