Home / Fréttir / Svíar og Frakkar staðfesta eiturárásina á Navalníj í Síberíu

Svíar og Frakkar staðfesta eiturárásina á Navalníj í Síberíu

Atkvæði greidd í héraðs- og bæjarstjórnakosningum í Rússlamdi 13.september.
Atkvæði greidd í héraðs- og bæjarstjórnakosningum í Rússlamdi 13.september.

Sjálfstæðar athuganir í rannsóknarstofum í Frakklandi og Svíþjóð staðfesta að rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalníj varð fyrir árás með rússneska taugaeitrinu novichok. Þessar niðurstöður falla að því sem þýskir sérfræðingar sögðu áður. Navalníj hefur verið til lækninga í Charité-sjúkrahúsinu í Berlín frá 22. ágúst.

Þegar Steffen Seibert, talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar, ræddi við blaðamenn mánudaginn 14. september sagði hann: „Við endurtökum hvatningu okkar til Rússa um að þeir skýri hvað gerðist.“

Rússar neita öllum ásökunum um að eitrað hafi verið fyrir Navalníj á flugvellinum í Tomsk í Síberíu áður enn hann hélt þaðan til Moskvu. Flugvélin nauðlenti 20. ágúst í Omsk, annarri Síberíuborg, vegna heiftarlegra veikinda Navalníjs um borð í vélinni. Hann var fluttur á sjúkrahús og sögðu læknar af og frá að eitrað hefði verið fyrir honum. Fulltrúar rússnesku öryggislögreglunnar, FSB, sátu yfir læknunum sem neituðu í fyrstu frjálsum félagasamtökum í Berlín sem sendu sjúkraflugvél til að ná í Navalníj um að fá hann afhentan, en hann lá í dái. Þýskir læknar héldu honum sofandi í nokkra daga en nú er hann að ná sér á strik og tekur þátt í samræðum. Ekki hefur verið skýrt frá því hvort eitrunin veldur honum varanlegum skaða.

Þýska ríkisstjórnin ráðgast náið við samstarfsstjórnir sínar í Evrópu til að ákveða aðgerðir gagnvart rússneskum stjórnvöldum.

Alexei Navalníj fór til Síberíu vegna héraðs- og bæjarstjórnakosninga sem fram fóru í Rússlandi sunnudaginn 13. september.

Að kvöldi 13. september sögðu stuðningsmenn Navalníjs í Novosibirsk, þriðju stærstu borg Rússlands, og nágrannaborginni Tomsk að þeir hefðu í fyrsta skipti tryggt sér sæti í bæjarstjórnum beggja borganna.

Ksenia Fadejeva (28 ára) sem stjórnaði skrifstofu Navalníjs í Tomsk sagði að hún og annar frambjóðandi undir merkjum Navalníjs hefðu náð kjöri í bæjarstjórn Tomsk. Sergei Boiko (37) sem stjórnaði skrifstofu Navalníjs í Novosibirsk sagðist einnig hafa náð kjöri í borgarstjórnina þar.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …