Sænska ríkisstjórnin ákvað að frá og með kl. 12.00 fimmtudaginn 12. nóvember þurfi þeir sem koma til landsins að sýna skilríki, vegabréf eða annað, til að sanna hverjir þeir eru. Í Danmörku er þeim um 17.000 manns sem fara daglega til Svíþjóðar um Eyrarsundsbrúna til vinnu bent á að gleyma ekki vegabréfi eða viðurkenndum persónuskilríkjum. Skipafélagið Stena Lines segir að ökuskírteini verði ekki tekin gild sem viðurkennd skilríki um borð í ferjum félagsins.
Þetta eftirlit við landamærin á að standa í tíu daga. Það verður framkvæmt við Eyrarsundsbrúna og á ferjum sem sigla til Svíþjóðar frá Danmörku og Þýskalandi. Anders Yegeman, innanríkisráðherra Svíþjóðar, segir að eftirlitið snerti alla sem fara um landamærin og kunni að leiða til vandræða fyrir þá.
Frá því í september hafa um 80.000 hælisleitendur verið skráðir í Svíþjóð.
Sænska ríkisstjórnin tilkynnti ákvörðun sína miðvikudaginn 11. nóvember sama dag og ráðstefna hófst á La Valetta á Möltu þar sem leiðtogar ESB- og Schengenríkjanna hittu forystumenn frá Afríku.
Breska blaðið The Daily Telegraph vitnaði fimmtudaginn 12. nóvember í Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, sem varaði við því að Schengen-samstarfið kynni að verða að engu vegna ákvörðunar Svía og lokunar landamæra með girðingum eða gaddavír. Slóvenar hafa nú sett gaddavír á landamæri sín gagnvart nágrönnum í austri til að hafa betri stjórn á streymi aðkomufólks til landsins.
Austurríska lögreglan segist hafa handtekið 12 forsprakka í mansals- og smyglhópi sem höfðu beitt sér gegn afgönskum og sýrlenskum fórnarlömbum. Þá hafi hún gefið út alþjóðlega handtökuskipun vegna fimm annarra.
Á leiðtogafundinum á Möltu var meðal annars ákveðið að ESB legði fram 1,8 milljarð evra sem upphafsgreiðslu til að auðvelda stjórnvöldum að búa í haginn fyrir fólk og minnka þar með líkur á flótta þess.
Áhersla verður lögð á sameiginleg verkefni sem eru líkleg til að stemma stigu við flótta fólks, störfum verður fjölgað þar sem mest upplausn er vegna brottfarar fólks auk verðir hugað að fjölgu starfa á leiðinni sem farandfólkið fer.
Ýtt verður undir lögmæta för fólks til dæmis með fjölgun námsstyrkja fyrir námsmenn og fræðimenn í Afríku.
Brugðist verður við smygli og mansali með sérstökum rannsóknarhópum.
Hraðað verður heimflutningi þeirra sem leitað hafa hælis án þess að málstaður þeirra eða lífskjör kalli á jákvæða afgreiðslu umsókna. Afríkuríki ætla að aðstoða Evrópuríki við að upplýsa hverjir menn án skilríkja eru í raun. Með því verður brottvísun þeirra auðvelduð.