Home / Fréttir / Svíar fá bandarískar B-52 sprengjuvélar til að senda skýr skilaboð til Moskvu

Svíar fá bandarískar B-52 sprengjuvélar til að senda skýr skilaboð til Moskvu

 

B-52 sprengjuvél eins og þær sem Bandaríkjamenn senda til Svíþjóðar.
B-52 sprengjuvél eins og sú sem Bandaríkjamenn senda til Svíþjóðar.

 

Tvær bandarískar sprengjuvélar af B-52 gerð munu taka þátt í æfingu með sænska hernum á Eystrasalti sem stendur dagana 5. til 20. júní. Þoturnar geta borið kjarnavopn. Þátttaka þeirra og hlutdeild NATO í æfingnni er túlkuð á þann veg á rússnesku vefsíðunni Sputnik  að með þessu vilji Svíar senda rússneskum yfirvöldum „skýr pólitísk skilaboð“.

Heræfingin á vegum Svía í samvinnu við NATO nefnist Baltops og munu 4.500 manns taka þátt í henni auk 50 skipa og 50 herflugvéla. Ætlunin er að B-52 þoturnar fljúgi 13. júní í einum áfanga frá Bandaríkjunum og aftur til baka. Þær eiga í ferðinni að kasta sprengjufarmi fyrir utan Ravlunda í Suður-Svíþjóð. B-52 þotur hafa aldrei áður tekið þátt í heræfingu á vegum Svía. Markmið hennar er að bregðast við ímyndaðri flotaárás Rússa.

Þingmenn flokks græningja sem eiga aðild að ríkisstjórn Svíþjóðar lýstu áhyggjum yfir þátttöku B-52-vélanna í æfingunni þegar hún var til umræðu í sænska þinginu og sögðu þær vekja daprar minningar um Víetnamstríðið í hugum margra Svía.

Karl Engelbrektson, hershöfðingi og talsmaður sænska hersins, sagði að æfingunum væri ekki aðeins ætlað að stilla saman strengi þátttakendanna heldur einnig að kynna þá mikilvægu öryggismálastefnu „að við gerum þessa hluti í samvinnu við aðra“. Hann lagði áherslu á  „Rússar [ákvæðu] sjálfir hvernig þeir túlkuðu þetta“.

Baltops er í hópi þriggja heræfinga undir merkjum NATO í maí og júní þar sem Svíar eru meðal þátttakenda. Mánudaginn 25. maí hefst 11 daga æfing með þátttöku níu landa, 115 orrustvéla og 3.600 manns yfir Svíþjóð og Norður-Noregi. Þar verða 19 Gripen fjölhæfar orrustuvélar úr sænska flughernum. Þar verða æfðar sprengjuárásir á skotmörk á jörðu niðri, loftárásir, loftvarnir, lágflug og eldsneytistaka á flugi. Auk þátttöku NATO-ríkja verða þarna einnig vélar frá Svíþjóð, Finnlandi og Sviss.

Í síðustu viku hófu Svíar þátttöku í flotaæfingu undir forsjá NATO í lögsögu Eistlands þar er meðal annars leitað að tundurduflum eða öðrum ósprungnum sprengjuleifum frá fyrri og síðari heimsstyrjöldinni.

Á sputniksnews.com segir að síðan á sjöunda áratugnum hafi Svíar reglulega en þó með leynd átt samstarf við NATO í öryggismálum þótt þeir hafi formlega staðið utan hernaðarbandalaga. Undanfarna mánuði hafi samvinnan við NATO aukist umtalsvert og megi tengja bætt tengsl Svía við bandalagið „vaxandi and-rússneskri vænisýki sem fer nú eins og stormsveipur um Svíþjóð“. Fjölmiðlar landsins hafi hvað eftir annað sagt frá ósýnilegum rússneskum kafbátum á sveimi undan strönd landsins, þá sé því haldið fram að rússneskar hervélar sýni ögrandi tilburði við sænsku landamærin og rússnesk stjórnvöld séu sökuð um að auka njósnir í landinu.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …