Home / Fréttir / Svíar efla varnir Gotlands vegna ögrana Rússa

Svíar efla varnir Gotlands vegna ögrana Rússa

Gotland er innan rauða hringsins á kortinu.
Gotland er einkennt með rauðum hring á kortinu.

Sænskar orrustuþotur voru sendar að morgni laugardags 4. júlí til að fylgjast með ferðum tveggja rússneskra sprengjuflugvéla fyrir austan sænsku Eystrasaltseyjuna Gotland á milli Svíþjóðar og Lettlands.

„Tvær Jas Gripen vélar eltu vélarnar og fylgdust með ferðum þeirra,“ sagði Marie Tisäter, vaktstjóri sænska hersins. „Þær rufu ekki sænska lofthelgi.“

Fréttir herma að flugvélar frá öðrum ríkjum en Svíþjóð hafi verið sendar á eftir rússnesku sprengjuvélunum en Tisäter upplýsti ekki frá hvaða ríkjum þær vélar hefðu verið. „Það er verkefni okkar að fylgjast með því sem gerist í nágrenni okkar. Þetta er ekki einstakt alvörumál, atburðir sem þessir gerast nokkuð oft. Við leggjum oft öðrum þjóðum við Eystrasalt lið og þær koma okkur einnig til aðstoðar.“

Á vefsíðunni thelocal.se segir að á liðnu ári hafi spenna aukist milli Svía og nágranna þeirra í austri. Ásakanir hafi verið um njósnir, kafbátaferðir og að Rússar hafi æft innrás á Gotland í mars.

Öll þessi hernaðarumsvif Rússa hafa valdið óróa í Svíþjóð og leitt til þess að Peter Hultqvist varnarmálaráðherra kynnti aukna hervæðingu í Svíþjóð, meðal annars með því að frá og með árinu 2018 verði 230 hermenn að staðaldri á Gotlandi. Eyjan verður þar með að austustu varðstöð Svía.

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …