Sænski varnarmálaráðherrann Pål Jonson fékk mánudaginn 19. júní skýrslu um stöðu öryggis- og varnarmála 2023 sem ber heitið Allvarstid – Alvörutímar. Vísar heitið til þess ástands og breytinganna á því sem setja svip á heimsmálin. Stórveldi á borð við Rússland vegi að alþjóðakerfi sem reist sé á lögum og rétti. Stórstyrjöld sé háð í Evrópu og Rússar hafi mótað stefnu um langvinn átök við Vesturlönd. Við langtímaskipulag sænskra allsherjarvarna (s. totalforsvar) verði að taka mið af árásargjörnu Rússlandi. Miða beri að því að Svíar geti staðist vopnaða árás og varið eigið landsvæði með aðild að sameiginlegu varnarkerfi. Væntanleg aðild Svíþjóðar að NATO leiði til mestu breytinga á sænskri stefnu í öryggismálum í 200 ár.
Í skýrslunni segir að sífellt sé vegið meira að fjölþjóðlegu samstarfi og fjölþjóðlegum stofnunum. Rússar og Kínverjar vinni að því að koma á nýrri skipan heimsmála. Markmiðið sé að til verði margpóla valdakjarnar í því skyni að grafa undan gildum og áhrifum Bandaríkjamanna og vestrænna þjóða almennt. Valdboðsstjórnir meðal annars í Rússlandi og Kína líti á lýðræði, mannréttindi og reglur réttarríkisins sem ógn við tilvist þjóða sinna og við þá stjórnarhætti sem ríki í löndunum.
Bent er á stórstyrjöldin sem Rússar hafi stofnað til í Evrópu hafi áhrif út fyrir landamæri Úkraínu. Rússar telji sig frá fornu fari hafa átt í átökum við Vesturlönd. Í skýrslunni segir að til langframa beri að líta á Rússland sem alvarlegustu ógnina við evrópskt og sænskt öryggi. Kínverjar ógni ekki Svíum beint hernaðarlega en framganga Kínverja á alþjóðavettvangi skapi litlum og meðalstórum ríkjum vaxandi vandræði. Ekki sé unnt að útiloka stórstyrjöld á Indó-Kyrrahafssvæðinu sem skipti heiminn allan miklu. Allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu og síðan sívaxandi samstarf Kínverja og Rússa sýni betur en áður tengslin milli öryggis í Evrópu og Asíu. Vegna geópólitískrar þróunar verði æ erfiðara að glíma við hættur sem virða engin landamæri eins og loftslagsbreytingar, heimsfaraldra, árásir á strategísk grunnvirki, ofbeldisfulla öfgahópa og skipulagða glæpastarfsemi.
Vegna árasárstefnu Rússa, virðingarleysis þeirra fyrir alþjóðalögum, skipan öryggismála í Evrópu og fyrir frjálsum, opnum og lýðræðislegum stjórnarháttum hafi ástand öryggismála Svía, nágrannaþjóða þeirra og Evrópumanna í heild versnað til mikilla muna. Allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu ásamt aukinni ásókn Kínverja í landsyfirráð sýni að átök um landsvæði með hervaldi séu raunverulegt viðfangsefni.
Af þessum sökum verði nú meiri breytingar á stefnu Svía í öryggismálum en áður hafi orðið á okkar tímum. Væntanleg aðild Svía að NATO sé mesta breyting á sænskri öryggisstefnu í meira en 200 ár.
Í skýrslunni segir að sænskir þjóðarhagsmunir krefjist þess fyrst og fremst að staðinn sé vörður um sjálfstæði landsins, fullveldi og landsyfirráðarétt. Her landsins sé til þess búinn að verja land sitt, þjóðina, lýðræðið, frelsið og hvernig Svíar hagi lífi sínu. Aðildin að NATO auki öryggi Svíþjóðar og stuðli jafnframt að auknu öryggi og stöðugleika í nágrenni landsins og almennt á Evró-Atlantshafssvæðinu.
Eftir að Svíar verði aðilar að NATO muni þeir beita sér fyrir að skipan evrópskra öryggismála raskist ekki og að alþjóðalög séu virt á grunni sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Svíar muni beita sér fyrir samstöðu innan NATO. Þá styrkist varnarmáttur Svía vegna aðildarinnar með samstarfi við bandamenn á tímum friðar, hættuástands og styrjaldar. Svíar muni leggja sitt af mörkum til sameiginlegra varna og framlag þeirra til NATO efli heildarvarnarmátt bandalagsins. Svíar eigi að búa yfir afli til að standast vopnaða árás og verja eigið landsvæði innan ramma sameiginlegra varna. Í skýrslunni er þess vegna hvatt til þess að Svíar haldi áfram að efla eigin varnir og viðnámsþrótt samfélagsins alls með allsherjarvörnum sem tengi herinn og almannavarnakerfið.