
Í nýrri sænskri stjórnarskýrslu er lagt til að herskylda verði að nýju tekin upp í Svíþjóð. Skráningarlistar með spurningum til ungs fólks verði lagðir fyrir það eftir 1. júlí 2017 og skráningin sjálf á grundvelli svaranna í þeim hefjist 1. janúar 2018. Í fyrsta hópnum sem kvaddir verða í herinn eru þeir sem fæddir eru 1999 og 2000.
Stefnt er að því að nokkur þúsund verði skráðir í herinn ár hvert en fjöldinn fer eftir því hvernig hver árgangur fellur að skráningarkröfunum. „Í núverandi kerfi skrá sig ekki nógu margir í herinn,“ segir Annika Nordgren Christensen sem fór fyrir skýrsluhöfundum.
Herskylda hafði verið við lýði í Svíþjóð í 109 ár þegar hún var formlega afnumin árið 2010. Þá voru sjálfboðaliðar hvattir til starfa í hernum. Vegna skorts á þeim setti ríkisstjórnina á laggirnar nefnd til að huga að umbótum og birtist niðurstaða hennar í ofangreindri skýrslu.
Meginniðurstaðan er að með tilliti til þess að staðan í öryggismálum versnar og að viðbúnaður sænska hersins sé verri en áður sé nauðsynlegt að grípa til tafarlausra umbóta.
Talið er að herinn þarfnist 4.000 nýliða árið 2018 og sama fjölda árið 2019. Árið 2021 þurfi árlegur fjöldi nýliða að vera 6.000 og síðan náist jöfnuður með 8.000 manna nýliðun árlega 2022 til 2025.
Nú þegar er lagt fyrir alla 18 ára gamla Svía að svara spurningum á vefsíðu skráningarstofu hersins um heilsufar sitt og líkamlega burði. Upplýsingarnar verða notaðar þegar herskylda verður innleidd að nýju.
Nú hefst fjögurra mánaða umsagnarferli um tillögurnar um herskyldu.
Jafnaðarmaðurinn Peter Hultqvist varnarmálaráðherra segist vona að takist að finna öfluga leið til að manna herinn og hún njóti almenns stuðnings.