
Danir hafa áhyggjur af að erfiðara verði fyrir þá að ferðast til Svíþjóðar á nýju ári eftir að Morgan Johansson, dóms- og útlendingamálaráðherra Svíþjóðar, tilkynnti miðvikudaginn 9. desember að framvísa beri persónuskilríkjum við komu til Svíþjóðar með langferðabíl, lest eða ferju.
Sænska ríkisstjórnin ætlar ekki að svo stöddu að loka Eyrarsundsbrúnni en leggur til eftirlit í langferðabílum, lestum og ferjum frá og með 21. desember og í síðasta lagi frá og með 4. janúar 2016.
„Við höfum ákveðið að leggja til við þingið að ríkisstjórnin fái heimild til að taka upp skoðun persónuskilríkja í langferðabílum, lestum og ferjum,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi. „Næsta vor á ekki að verða eins og haustið í ár. Við ætlum að fækka beiðnum um hælisvist. Könnun persónuskilríkja er leið að því marki.“
Á vefsíðu Jyllands-Posten segir að skoðun Svía á persónuskilríkjum kunni að fjölga hælisleitendum í Danmörku og raunar á öllu meginlandi Evrópu.
Flutningafyrirtæki hafa tíma til 4. janúar til að búa sig undir hið aukna eftirlit. Þess er vænst að lengri tíma en áður taki að ferðast milli Svíþjóðar og Danmerkur. Samráð er milli ríkisstjórna landanna vegna málsins.
Við undirbúning tillagna sinna um þetta efni sætti sænska ríkisstjórnin þungu ámæli fyrir ætla að taka upp almennt eftirlit á Eyrarsundsbrúnni milli Kaupmannahafnar og Malmö. Féll hún frá áformunum vegna gagnrýninnar.