
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði fimmtudaginn 15. október að ekki væri unnt að „útiloka árás á Svíþjóð“ þegar hann kynnti varnarmálastefnu landsins til næstu fjögurra ára. Útgjöld til varnarmála aukast um 40% á þessu árabili.
Ætlunin er að auka hernaðarútgjöld Svía um 27 milljarða sænskra króna (3 milljarða dollara) á árunum 2021 til 2025.
Hultqvist segir að varnir landsins verði að auka vegna vaxandi spennu í Evrópu. Varnarmálaráðherrann sagði: „Ekki er unnt að útiloka vopnaða árás á Svíþjóð.“
Sé litið á heildarhækkun sænskra hernaðarútgjalda á árunum 2014 til 2025 í ljósi þess sem varnarmálaráðherrann hefur nú boðað nemur hún 85% á þessu árabili.
„Þetta er mesta hlutfallslega hækkun hernaðarútgjalda síðan á sjötta áratugnum,“ sagði Hultqvist.
Fjárlagaáætlunin verður lögð fyrir sænska þingið. Hún nær til allra greina heraflans og er við það miðað að mannafli í hernum verði alls 90.000 í stað 60.000 í ár.
Á tíunda áratugnum drógu Svíar mjög úr útgjöldum til hermála og skáru niður heimaherafla sinn en lögðu áherslu á að geta sent hersveitir til fjarlægra staða til að stuðla að friðargæslu. Umskipti urðu í umræðum um varnir Svía eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014.
Herskylda var tekin upp að nýju árið 2017 og í janúar 2018 opnaði sænski herinn að nýju varnarmannvirki sín á eyjunni Gotlandi í Eystrasalti með vísan til ágengni Rússa í Evrópu og á Eystrasaltssvæðinu.
Í kalda stríðinu héldu Svíar úti öflugum herafla til varnar landi sínu auk þess sem almannavarnir þeirra voru í fremstu röð. Þá voru hernaðarútgjöld um 3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Bæði hervarnir og allsherjarvarnir, totalforsvar, voru næstum aflagðar eftir að kalda stríðinu lauk.
Þegar Peter Hultqvist kynnti nýju fjögurra ára áætlunina sagði hann að það myndi taka langan tíma að endurreisa herinn og lýsti vonbrigðum með að afvopnun undanfarinna ára hefði „gengið of langt“, hvatti hann til þess að „mistökin“ yrðu „ekki endurtekin“ og gætt yrði „stöðugleika“.
Árið 2015 námu þessi útgjöld um 1% af VLF og verða rúmlega 1,5% árið. Svíar eru utan NATO en innan bandalagsins er stefnt að því að útgjöld til varnarmála séu um 2% hjá aðildarþjóðunum 2024.
Finnar eru nánustu bandamenn Svía og hernaðarútgjöld þeirra eru rúmlega 2% af VLF þrátt fyrir COVID-19-faraldurinn og þar vegur þungt meira en 50% aukning vegna áforma um kaup á orrustuflugvélum með öllum búnaði.