Home / Fréttir / Svíar andmæla hugmyndum Rússa um nýskipan öryggismála

Svíar andmæla hugmyndum Rússa um nýskipan öryggismála

Jens Stolenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Micael Byden, hershöfðingi, yfirmaður sænska heraflans, heræfingu í Svíþjóð í október 2021.

Varnarstefna Svía yrði gjörsamlega gagnslaus ef samþykkt yrði innan NATO að stækka ekki frekar og ef seglin yrðu dregin saman af hálfu bandalagsins í Evrópu að kröfu Rússa segir yfirmaður sænska hersins.

Vegna krafna Rússa gagnvart Bandaríkjastjórn og NATO hafa Svíar lýst áhyggjum sínum meðal annars í samtali sem Magdalena Andersson, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, átti við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, fimmtudaginn 6. janúar.

Forsætisráðherrann þakkaði Stoltenberg fyrir samtalið í færslu á Twitter og áréttaði að það hefði snúist um mikilvægi þess að viðhalda skipan öryggismála í Evrópu og dýpka samstarf Svía við NATO.

Föstudaginn 7. janúar sagði Micael Byden, hershöfðingi, yfirmaður sænska heraflans, við Dagens Nyheter:

„Tillögur um nýja skipan öryggismála mundu eyðileggja grundvöllinn undir skipulagi öryggismála okkar. Við stefnum að því að styrkja varnir okkar á öllum sviðum og þróa heildarvarnir. Allt er það reist á að við eigum aðild þróaðri alþjóðlegri samvinnu.“

Magdalena Andersson sagði fimmtudaginn 6. janúar eftir samtal við Sauli Niinsto Finnlandsforseta að ekki væri til umræðu að semja um skipan öryggismála í Evrópu. „Í Svíþjóð ákveðum við sjálf utanríkis- og öryggismálastefnu okkar og með hverjum við störfum,“ sagði forsætisráðherrann.

Rússneskir ráðamenn vilja að borið sé undir þá hvort NATO stækki frekar en orðið er og hvaða vopnakerfi séu sett niður í NATO-ríkjum í nágrenni Rússlands.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, fór í þriggja daga heimsókn til Washington miðvikudaginn 5. janúar til að árétta sjónarmið og hagsmuni Svía á fundum með háttsettum embættismönnum Bandaríkjastjórnar.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …