Home / Fréttir / Svíar aflýsa mikilli heræfingu

Svíar aflýsa mikilli heræfingu

18979654

Sænska varnarmálaráðuneytið ákvað föstudaginn 3. apríl að aflýsa fyrirhugðu heræfingunni Aurora vegna kórónaveirunnar. Ráðgert var að um 25.000 hermenn tækju þátt í æfingunni á sjó, í lofti og á landi frá 11. maí til 4. júní.

Ákvörðunin um að hætta við æfinguna var tekin eftir miklar umræður um málið í Svíþjóð. Málsvarar æfingarinnar töldu að sýna yrði að sænski heraflinn gæti sinnt skyldum sínum á tímum sem þessum. Aðrir töldu að beina ætti kröftum og fjármunum annað á dögum kórónaveirunnar.

Æfingin skyldi haldin á þessum tíma til að ljúka tæplega árs herskyldu þeirra sem skráðir voru til hennar á árinu 2019. Nú er stefnt að því að þeir ljúki herskyldu sinni með minni lokaæfingum.

Ætlunin var að auk Svía tækju hermenn frá 12 ríkjum þátt í Aurora-æfingunni. Áður en sænsk yfirvöld höfðu blásið æfinguna af að þessu sinni höfðu borist boð frá Þýskalandi og Kanada um að hermenn þaðan kæmu ekki til hennar vegna veirunnar.

Fyrir skömmu bundu norsk yfirvöld enda á NATO-æfinguna Cold Response í Troms og Finnmörk vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar í Noregi.

Aflýst á Íslandi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ákvað 12. mars 2020 að aflýsa Norðurvíkingi, tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna sem átti að fara fram á Íslandi 20.-26. apríl nk. Þetta er gert í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar.

Um var að ræða umfangsmikla æfingu undir stjórn bandarísku flugherstjórnarinnar í Evrópu með 900 þátttakendum frá Bandaríkjunum og fleiri ríkjum. Auk Bandaríkjanna og Íslands hugðu Belgía, Bretland, Danmörk, Holland, Ítalía, Kanada, Noregur, Þýskaland á þátttöku og fulltrúar Ástralíu og Nýja-Sjálands ætluðu að senda fulltrúa til Íslands til að fylgjast með æfingunni.

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …