
Þing Svartfjallalands samþykkti miðvikudaginn 15. febrúar að aflétta þinghelgi af tveimur stjórnarandstöðuþingmönnum vinveittum Rússum. Þeir eru sakaðir um að hafa átt aðild að misheppnaðri byltingartilraun í október 2016.
Dusko Markovic, forsætisráðherra Svartfjallalands, hefur sagt Rússum og bandamönnum þeirra í Svartfjallalandi að hætta að grafa undan stöðugleika í landinu með andstöðu við aðild landsins að NATO. Hún komi til sögunnar á árinu 2017.
Ráðherrann flutti varnaðarorð sín þriðjudaginn 14. febrúar eftir að flokkar hlynntir Rússum fordæmdu ósk sérstaks saksóknara í Svartfjallalandi um að þing landsins samþykkti að upphefja þinghelgi tveggja forystumanna stjórnarandstöðunnar.
Forystumenn stjórnarandstöðuflokksins Lýðræðisfylkingarinnar sem hallar sér að Rússum, Andrija Mandic og Milan Knezevic, eru sakaðir um að hafa átt aðild að samsæri í þágu Rússa í október sem miðaði að því að myrða þáverandi forsætisráðherra Svartfjallalands og ná völdum til að forða landinu frá aðild að NATO.
Milivoje Katnic saksóknari vill að þinghelginni verði aflétt svo að handtaka megi mennina og kæra þá fyrir saknæmt samsæri og fyrir að hvetja til „aðgerða gegn stjórnskipun og öryggi Svartfjallalands“.
Stjórnvöld Svartafjallands hafa sakað samsærismennina um að hafa ætlað að leggja undir sig þing landsins og myrða Milo Djukanovic, fyrrv. forsætisráðherra, á kjördag 16. október 2016.
Þingmenn Svartfjallalands eru 81, 42 þeirra sóttu þingfundinn þar sem tillagan um afléttingu þinghelginnar var afgreidd með atkvæðum þeirra allra.
Ivan Brajovic, forseti þingsins, sagði að þingið hefði samþykkt að hefja mætti sakamál gegn mönnunum tveimur og þá mætti handtaka.
Lýðræðisfylkingin á 18 þingmenn og þeir berjast hart gegn aðild Svartfjallalands að NATO. Flokkurinn hefur staðið að baki ofbeldisfullum mótmælum gegn aðildinni.
Stjórnvöld hafa sakað „rússneska þjóðernissinna“ um að skipuleggja samsærið sem fullyrt er að hafi verið á döfinni. Serbar vinveittir Rússum hefðu verið fengnir til að framkvæma það.
Alls voru 15 Serbar handteknir daginn fyrir kjördag og leitað er tveggja Rússa sem eru enn á flótta.
Djukanovic, sem hafði verið forsætisráðherra og forseti Svartfjallalands í tæp 25 ár settist ekki í ríkisstjórnina eftir kosningarnar 16. október 2016 þótt flokkur hans hefði sigrað í þeim.