Svartfjallaland varð 29. aðildarríki NATO mánudaginn 5. júní þegar fulltrúar þess lögðu aðildarskjöl því til staðfestingar fram í bandaríska utanríkisráðuneytinu, gæsluaðila Norður-Atlantshafsáttmálans sem ritað var undir í Washington 4. apríl 1949.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði við athöfnina að aðild Svartfjallands að bandalaginu stuðlaði að alþjóðlegum friði og öryggi og væri til marks um að dyr NATO stæðu þeim opnar sem vildu ganga í það.
Duško Marković, forsætisráðherra Svartfjallalands, og Srdan Darmanovic, utanríkisráðherra landsins, voru við athöfnina.
Í grein á vefsíðu Foreign Affairs segir Robbie Gramer að með aðeins 2.000 manna her hafi það lítil áhrif á hernaðarmátt NATO að Svartfjallaland verði aðili en aðildin hafi djúpstæðar pólitískar afleiðingar. Hún sé skýrt dæmi um hve vel hafi miðað á vesturhluta Balkanskaga og sérstaklega í Svartfjallalandi síðan þar voru blóðug stríðsátök á tíunda áratugnum. Stjórnvöld hafi orðið að laga sig að margvíslegum kröfum NATO um breytingar á stjórnarháttum vegna aðildarinnar.
Þá stuðli aðild Svartfjallalands einnig mjög að því að tryggja pólitískan stöðugleika á vesturhluta Balkanskaga auk þess sem landið fái einskonar forystuhlutverk á svæðinu og til þess verði litið sem fordæmis um að ungt ríki, ekki einu sinni 10 ára, geti náð pólitískum markmiðum sínum sé stefnunni fylgt fram á markvissan hátt. Gramer telur að hugsanlega verði þetta ráðamönnum í Makedóníu og Bosniu-Herzegóvínu hvatning til að taka til hjá sér svo að ríki þeirra fullnægi kröfum um um NATO-aðild. Þá kunni aðild Svartfjallalands minnt fólk í Georgíu og Úkraínu á að NATO fylgir stefnu sinni um „opnar dyr“ þótt efasemdir hafi vaknað við innlimun Rússa á Krímskaga fyrir þremur árum.
Gramer minnir á að Rússar andmæli harðlega stækkun NATO vegna djúpstæðs ótta síns um að verða „umkringdir“ af hugsanlegum andstæðingum. Innan Rússlands geri Vladimir Pútín meira úr ógninni af NATO til að skapa að nýju kalda-stríðs-andrúmsloft og tryggja þannig stöðu sína í hugum heimamanna. Vegna þessa skipti höfuðmáli fyrir Rússa að halda NATO í skefjum. Þeir séu þess vegna á móti NATO-aðild Svartfjallalands og hóti jafnvel gagnaðgerðum.
Líklegt sé að Rússar reyni að beita Svartfellinga að pólitískum og efnahagslegum þrýstingi. Þeir kunni að stofna til mótmæla og annarra aðgerða með aðstoð rétttrúnaðarkirkjunnar og stjórnmálaflokka sem hafa náin tengsl við Serba og Rússa.
Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna rituðu undir aðildarskjal Svartfjallalands í maí 2016 og síðan var aðildin staðfest af þjóðþingum aðildarlandanna 28. Miðvikudaginn 7. júní verður fáni Svartfjallands dreginn að húni við höfuðstöðvar NATO í Brussel.
Bandalagið stækkaði síðast 1. apríl 2009 þegar Albanía og Króatía gerður aðilar þess.