Home / Fréttir / Svartfjallaland: Mótmæli Rússavina vegna áforma um NATO-aðild

Svartfjallaland: Mótmæli Rússavina vegna áforma um NATO-aðild

 

Mótmælendur við þinghús Svartfjallalands.
Mótmælendur við þinghús Svartfjallalands.

 

Talið er að 2.000 manns hið minnsta hafi komið saman fyrir framan þinghús Svartfjallalands laugardaginn 12. desember og mótmælt fyrirhugaðri aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Fyrr í mánuðinum var Svartfellingum boðið að verða 29. aðildarríki bandalagsins.

Mótmælendur vilja að ákvörðun um aðild að NATO verði lögð fyrir Svartfellinga í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Andrija Madic, leiðtogi Nýja serbneska lýðræðisflokksins, sem er hollur Rússum, ávarpaði mótmælendur og sagði: „Sé ekki gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu en beitt sviksemi við að knýja málið fram á þingi mun skapast hætta á átökum í Svartfjallalandi.“

Mótmælendur hrópuðu: Rússland! Rússland! og veifuðu borðum með áletrunum eins og „NATO morðingjar“ eða „Þið eruð ekki velkomin hér“.

Þýska fréttastofan DW segir að umræður um NATO-aðild hafi snert tilfinningar margra þar sem ekki séu nema 15 ár liðin frá því að hervélar undir merkjum NATO hafi í 11 vikur gert loftárásir á Sambandslýðveldið Júgóslavíu sem sameinaði þá Serbíu og Svartfjallaland.

„Í meira en 70 daga köstuðu þeir á okkur sprengjum. Hvernig getum við fyrigefið þeim morðin og eyðilegginguna?“ spurði Radomir, 46 ára rafvirki, þegar fréttamaður AFP-fréttastofunnar ræddi við hann. „Okkur er alveg fyrirmunað að gleyma þessu.“

Loftárásunum lauk með því að Kosóvó klauf sig frá Serbíu og var lýst sjálfstætt ríki árið 2008.

Skilnaður Svartfellinga við Serbíu var friðsamur árið 2006. Um 630.000 manns búa í landinu og hefur stjórn þess óskað eftir aðildarviðræðum við ESB en fyrst verði landið aðili að NATO.

Milo Djukanovic, forsætisráðherra Svartfjallalands, hefur staðfastlega hafnað öllum óskum um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna NATO-aðildarinnar. Rússar hafa fjárfest töluvert í Svartfjallalandi og menningarleg bönd eru milli landsmanna og Rússa sem hafa sótt mikið þangað sem ferðamenn og til búsetu við strendur landsins við Adriahaf. Þar eru hverfi reist af Rússum og í eigu þeirra auk rússneskra barnaskóla.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …