Home / Fréttir / Svartahaf: Rússar ögra hollenskri freigátu

Svartahaf: Rússar ögra hollenskri freigátu

Hollenska freigátan HNLMS Evertsen

Hollenska varnarmálaráðuneytið segir að rússneskar orrustuþotur hafi „áreitt“ freigátu í hollenska flotanum við æfingar á Svartahafi. Þoturnar hafi látið eins og þær ætluðu að ráðast á skipið.

Hollenska herskipið HNLMS.Evertsen fylgdi breska tundurspillinum HMS Defender við eftirlit og æfingar á Svarta hafi í liðinni viku. Hollenska varnarmálaráðuneytið segir að þá hafi rússneskar flugvélar flogið „hættulega lágt og nálægt eins og þær væru að gera árásir“.

Þessi yfirlýsing hollenska varnarmálaráðuneytisins sem birtist á bresku vefsíðunni The Telegraph miðvikudaginn 30. júní og þar er minnt á að Rússar sögðust í síðustu viku hafa skotið viðvörunarskotum að The Defender og kastað sprengjum í nágrenni skipsins skammt undan strönd Krímskaga. Bretar hafna þeirri frásögn og segja að ekki hafi verið skotið á skipið.

Í tilkynningu hollenska varnarmálaráðuneytisins þriðjudaginn 29. júní sagði að hollenska herskipið hefði „hvað eftir annað“ verið áreitt og orrustuvélar „sprengjum og svonefndum loft-til-lands flaugum bjuggu sig undir að hitta skotmark úr lofti“ og eftir „margra klukkustunda ögranir“ hefðu Rússar tekið til við að trufla rafeindakerfi skipsins. Ráðuneytið sagði að Rússar hefðu „brotið gegn reglunni um réttinn til frjálsra afnota af hafinu“.

George Pastoor, flotaforingi, skipherra hollenska herskipsins, sagði: „Þessar árásáraðgerðir voru algjörlega tilefnislausar. Þrátt fyrir það var þeim haldið áfram klukkustundum saman. Þarna var sýnt ábyrgðarleysi og ógn við öryggi á hafi úti.“

Hollenski varnarmálaráðherrann, Ank Bijleveld-Schouten, sagði að vegið hefði verið að rétti skipsins til frjálsrar siglingar. Ekkert réttlætti þetta árásargjarna ábyrgðarleysi sem yki að ástæðulausu á slysahættu. Hollendingar létu þetta ekki átölulaust við Rússa.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …