
Norður-Kóreumenn hafa boðist til að ganga til viðræðna og hætta tilraunum með kjarnorkuvopn og eldflaugar sagði þjóðaröryggisráðgjafi Suður-Kóreu í Washington eftir fund með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu fimmtudaginn 8. mars.
Chung Eui-yong flutti Trump skilaboð frá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, með boði um einkafund með Bandaríkjaforseta. Chung sagði að Trump vildi hitta Kim.
Þessa óvæntu tilkynningu má rekja til þess að Chung var í forystu fyrir fimm manna sendinefnd frá Suður-Kóreu í Pjongjang, höfuðborg Norður-Kóreu, mánudaginn 5. mars þar sem hann hitti Kim Jong-un í viðleitni stjórnvalda landanna til að minnka spennu á Kóreuskaga.
„Hann (Kim) lýsti einlægum áhuga á að hitta Trump forseta eins fljótt og kostur væri,“ sagði Chung. „Trump kunni að meta frásögnina og sagði að hann mundi hitta Kim Jong-un í maí því skyni að uppræta kjarnorkuvopn í eitt skipti fyrir öll.“
Eftir að Chung sagði frá fundi sínum með Trump staðfestu embættismenn forsetans að hann mundi hitta Kim en ákveða yrði stað og stund.
Sarah Sanders, blaðafulltrúi Trumps, sagði: „Við fögnum því þegar Norður-Kórea verður kjarnorkuvopnalaus. Þar til það verður þarf að framfylgja þvingunum og hámarks þrýstingi.“
Chung hrósaði Trump og sagði:
„Ég skýrði Trump forseta frá þeirri skoðun að forysta hans og stefna hans um hámarks þrýsting hefði ásamt með alþjóðlegri samstöðu skilað okkur þessum árangri. Ég flutti Trump forseta sérstakar þakkir frá Moon Jae-in forseta [S-Kóreu] fyrir forystu hans.“
Hann sagði mikilvægt að lært yrði af mistökum fortíðar og þrýst yrði á Norður-Kóreumenn þar til þeir sýndu í verki að þeir stæðu við orð sín.
Áður en til fundarins kom í Hvíta húsinu höfðu stjórnvöld S-Kóreu þegar kynnt að Norður-Kóreumenn vildu ræða við Bandaríkjamenn um kjarnorkuvopnaleysi og að samskipti ríkjanna kæmust í eðlilegt horf. Undir lok apríl ætla leiðtogar Suður- og Norður-Kóreu að hittast á fundi.
Bandarísk stjórnvöld hafa lengi krafist þess að Norður-Kóreumenn hættu tilraunum með kjarnorkuvopn og eldflaugar. Gerðu þeir það ekki yrði ekkert rætt við þá af bandarískri hálfu. Norður-Kóreumenn hafa hins vegar krafist þess að sameiginlegum heræfingum Bandaríkjamanna og Suður-Kóreumanna yrði hætt.
Þriðjudaginn 6. mars sögðu Suður-Kóreumenn að Kim hefði sagt að það væri „engin ástæða“ til að eiga kjarnorkuvopn „ef látið yrði af hernaðarógnum gegn Norður-Kóreu og öryggi stjórnar landsins“.
Ekkert stjórnmálasamband er milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu og tæknilega ríkir enn ófriðarástand í samskiptum þeirra vegna Kóreustríðsins 1950-53 sem lauk með vopnahléi en ekki friðarsamningi.
Í nærri 20 ár hafa Norður-Kóreumenn leitað eftir milliliðalausum fundi við Bandaríkjamenn. Fyrri tilraunir til að skapa eðlilegt ástand í samskiptum ríkjanna hafa misheppnast þar sem Norður-Kóreumenn hafa hlaupið frá skuldbindingum sínum.
Fréttaskýrendur og sérfræðingar vara við ótímabærri bjartsýni þrátt fyrir að þessi áform um frið hafi verið kynnt. Margt kunni að gerast til að þau verði að engu.