Home / Fréttir / Suður-Kóreumenn fjölmenntu á kjörstað þrátt fyrir COVID-19 – stjórnarflokkurinn sigraði

Suður-Kóreumenn fjölmenntu á kjörstað þrátt fyrir COVID-19 – stjórnarflokkurinn sigraði

Korið í COVID-19-faraldri
Korið í COVID-19-faraldri

COVID-19 faraldurinn hefur leikið heimsbyggðina grátt á undanförnum mánuðum. Nokkrum ríkjum hefur tekist að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu vírusins. Þar eru dauðsföll sem rekja má til hans frekar fá. Eitt af þessum ríkjum er Suður – Kórea. Þar hefur sú leið verið farin að láta fjölda landsmanna gangast undir próf sem skera úr um hvort þeir séu sýktir eða ekki. Veikir einstaklingar og þeir sem þeir hafa umgengist fara á sjúkrahús eða í sóttkví. Því hafa þó ekki nema rúmlega 200 manns látist úr veirusýkingunni í Suður – Kóreu. Stjórnvöld hafa því ekki neyðst til þess að loka landinu líkt og mörg önnur ríki og lífið gengur að nokkru leyti sinn vanagang þar.

Suður – Kóreubúar gengu til að mynda að kjörborðinu þann 15. apríl síðastliðinn. Fram kemur á fréttavef BBC að kosningarnar hafi gengið vonum framar. Þrátt fyrir margvíslegar varúðarráðstafanir vegna kórónufaraldursins var kjörsókn rúmlega 66%. Fleiri hafa ekki tekið þátt í kosningum í landinu í 18 ár. Það ber reyndar að hafa í huga að kosningaaldurinn var lækkaður fyrir þessar kosningar.

Rúmlega þrjátíu flokkar buðu fram en baráttan stóð á milli tveggja þeirra. Lýðræðis­flokkurinn er undir stjórn forseta landsins Moon Jae-in. Atti hann kappi við flokkinn Sameinuð framtíð sem leiddi bandalag íhaldsflokka. Flokkarnir börðust um 300 sæti á þinginu í Seoul sem er höfuðborg landsins. Niðurstöður kosninganna urðu þær að Lýðræðisflokkurinn vann afgerandi sigur. Hlaut hann 163 sæti og þegar talin eru með atkvæði samstarfsflokks hans ráða fylgismenn Moon Jae-in nú 180 sætum á þinginu.

Flóttamaður tekur sæti á þingi

Brotið var blað í stjórnmálasögu Suður – Kóreu í kosningunum því nú tekur í fyrsta skipti flóttamaður frá Norður – Kóreu sæti á þingi landsins. Um er að ræða Thae Yong-ho sem bauð sig fram fyrir Sameinaða framtíð í kjördæmi í Seoul. Thae Yong-ho var þar til fyrir fjórum árum aðstoðarsendiherra Norður – Kóreu í Bretlandi. Hann hefur greint frá því í viðtölum að honum hafi blöskrað ógnarstjórnin í Norður – Kóreu og því ákveðið að flýja með fjölskyldu sína og sækja um hæli í nágrannaríkinu í suðri. Flóttinn var mikið áfall fyrir stjórnina í Pyongyang, höfuðborg Norður – Kóreu, enda hefur jafn háttsettur embættismaður aldrei flúið landið. Eftir sigurinn í kosningunum þann 15. apríl sagði Thae Yong-ho að hann vonaði að nú myndu embættismenn í Norður – Kóreu átta sig á því að þeir gætu átt frama í Suður – Kóreu nokkuð sem gæti veikt stjórnina í Pyongyang.

Suður – Kórea stendur á krossgötum

Nokkrum dögum fyrir kosningarnar í landinu birti breska vikuritið The Economist greinasafn um ríkið. Þar kemur fram að það sé að breytast. Frá því lýðræði var endurreist í landinu á níunda áratug síðustu aldar hefur togstreita verið á milli stjórnvalda og almennings sem hefur viljað ráða meiru um þróun samfélagsins. Nú lýtur út fyrir að almenningur hafi náð yfirhöndinni. Aukin áhrif borgaranna sjást m.a. á því að listum er gert hærra undir höfði en áður. Sem dæmi má nefna kvikmyndina Parasite, eftir Suður – kóreska leikstjórann Bong Joon-ho, sem gerði garðinn frægan á síðustu óskarsverðlaunahátíð.

Annað gott dæmi er strákahljómsveitin BTS sem er um þessar mundir vinsælasta hljómsveit sinnar tegundar í heiminum. Í fyrra gáfu þeir út lagið Dionysus sem nefnt er eftir samnefndum grískum guð sem var goð áfengisdrykkju og annarra lasta. Lagið fjallar um að menn eigi ekki að fylgja um of þrúgandi reglum samfélagsins heldur sleppa fram af sér beislinu. Lagið hefur verið mjög vinsælt í Suður – Kóreu.

Staða kvenna er líka að breytast í Suður – kóresku samfélagi. Ekki er vanþörf á enda eru þær ekki virtar að verðleikum þar. Aðeins rúmlega helmingur þeirra er á vinnumarkaðinum og þær fá talsvert lægri laun heldur en karlar í sambærilegum störfum. Ekki auðveldar það útivinnandi konum að kynferðisleg áreitni á vinnustöðum er landlæg.   Framakonur í landinu sleppa ekki við heimilisstörf því hefð er fyrir því að þær sinni þeim að mestu leiti. Ein afleiðing bágrar stöðu kvenna í landinu er að margar konur kjósa að ganga ekki í hjónaband. Þetta er ein ástæða þess að fæðingartíðni í Suður – Kóreu er sú lægsta í heiminum.

Erfiðir tímar í efnahagsmálum

Breytingar eiga sér líka stað á efnahagskerfi landsins. Suður – Kóreumenn búa við mikla hagsæld og var grunnur lagður að henni á áratugunum eftir 1960. Þá treysti hagkerfið á framleiðslu nokkurra risafyrirtækja svo sem Hyundai, LG og Samsung sem seldu vörur á alþjóðamarkaði. Nú er hins vegar svo komið að þessi leið tryggir ekki lengur hagsæld þjóðarinnar. Við þetta bætist að landsmenn eru að eldast og þar sem þeim fer fækkandi mun reynast erfitt fyrir stjórnvöld að bæta hag eftirlaunaþega sem margir búa við kröpp kjör í dag. Stjórnvöld hyggjast bregðast við þessum efnahagslegu áskorunum með því að leggja áherslu á vöxt sprotafyrirtækja í þeirri von að efnahagskerfi landsins verði fjölbreyttara. Vöxtur slíkra fyrirtækja hefur verið hraður í Suður – Kóreu síðustu misseri en þau eru þó enn þá aðeins lítill hluti hagkerfisins.

Stjórnmálaspilling

Stjórnmálalífið er ekki undanskilið þeim hræringum sem eiga sér stað í landinu. Rekja má breytingar á því sviði til ferjuslyss sem varð undan ströndum landsins árið 2014. Spilling gerði það að verkum að björgunaraðgerðir mislukkuðust og svo fór að 304 farþegar, flestallir börn, drukknuðu. Þetta leiddi til mikillar óánægjuöldu meðal almennings sem varð til þess að forseta landsins, Park Geun-hye var vikið úr embætti og hún sótt til saka. Mótmælendur og þá sérstaklega þeir yngri í þeim hópi létu ekki þar við sitja og beindu næst spjótum sínum að löggjafarvaldinu sem þeir sögðu að endurspeglaði ekki samfélagið. Sem dæmi um það bentu þeir á að eftir kosningarnar 2016 hafi aðeins þrír þingmenn verið undir fertugu þó um þriðjungur kosningabærra manna væri yngri en 40 ára. Moon Ja-in nýtti sér óánægju almennings til þess að komast til valda árið 2017. Miklar vonir voru bundnar við hann í byrjun en er leið á kjörtímabilið fóru vinsældir hans að dala og í byrjun árs leit ekki út fyrir að flokkur hans myndi vinna kosningarnar í apríl.

korean-peninsular

Ógnin úr norðri

Stjórnvöld í Seoul þurfa sí og æ að kljást við kommúnistastjórnina í Norður – Kóreu. Árið 2018 urðu samskipti ríkjanna heldur vinsamlegri en það entist ekki lengi. Flóttamönnum frá Norður – Kóreu hefur hins vegar ekki fjölgað. Það er vegna þess að Kínverjar sem eru bandamenn stjórnvalda í Norður – Kóreu gæta betur landamæranna á milli ríkjanna. Kjör íbúa landsins hafa einnig aðeins skánað í kjölfar þess að stjórnvöld í Pyongyang hafa séð sig knúin til að leyfa takmarkað frelsi í viðskiptum til að halda ríkinu gangandi. Það kann því að hökta áfram. Stjórnvöld í Seoul gera hins vegar ráð fyrir því að framtíðarhorfur ríkisins séu ekki góðar. Til skamms tíma sáu þau fyrir sér að ef kommúnistastjórnin félli myndu þau gera það sama og stjórnvöld í Bonn þegar Austur – Þýskaland hvarf af landakortinu þ.e. innlima landið á einni nóttu. Sameining ríkjanna á Kóreuskaganum yrði hins vegar margfalt dýrari en þýsku ríkjanna. Áætlanir gera ráð fyrir að kostnaðurinn geti numið 3% – 12% af vergri landsframleiðslu næstu áratugi. Því vonast stjórnvöld í Seoul nú eftir því að hægt verði að sameina ríkin tvö hægt og bítandi og þannig minnka álagið á ríkissjóð Suður – Kóreu. Sú þróun myndi líka auðvelda Norður – Kóreumönnum að aðlagast nýju samfélagi en mörgum þeirra sem hafa flúið til Suður – Kóreu hefur reynst það erfitt.

Annað vandamál sem Suður – Kóreubúar glíma við eru samskiptin við Bandaríkjamenn. Þeir hafa haft herafla í landinu í áratugi bæði til að tryggja öryggi ríkisins og líka til þess að stuðla að friði í Suðaustur – Asíu. Donald Trump Bandaríkjaforseti sýnir þessum skuldbindingum hins vegar lítinn áhuga. Sem dæmi um það er að hefð var fyrir því að stjórnvöld í Seoul og Washington semdu á fimm ára fresti um hvernig þau myndu skipta á milli sín útgjöldum vegna veru bandaríska hersins í Suður – Kóreu. Nú er slíkt gert á hverju ári og reynast samningaviðræðurnar erfiðar.

Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Suður – Kóreubúa?

Í lok greinasafnsins nefnir blaðamaður The Economist að þó ýmislegt hafi breyst í landinu þá sé gamla samfélagsgerðin alls ekki hrunin. Enn er mikill þrýstingur á yngri kynslóðina að gera hlutina með sama hætti og foreldrar þeirra. COVID-19 faraldurinn hefur orðið til þess að treysta gamlar hefðir í landinu. Blaðamaðurinn nefnir tvö dæmi. Sagan sýnir að á óvissutímum eru stjórnvöld vön að styrkja stórfyrirtækin nokkuð sem getur komið í veg fyrir að hagkerfið verði fjölbreyttara. Hitt dæmið snýst um stöðu kvenna í samfélaginu. Margar þeirra hafa þurft að hætta á vinnumarkaðinum til að sjá um ættingja sína sem eru illa staddir vegna faraldursins. Of snemmt er því að segja til um hvernig Suður – Kórea muni líta út á næstu árum.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …