Home / Fréttir / Suður-Kínahaf: Bandaríkjastjórn áréttar andstöðu við ásælni Kínastjórnar

Suður-Kínahaf: Bandaríkjastjórn áréttar andstöðu við ásælni Kínastjórnar

Hér sést hvernig kínverski herinn hefur búið um sig á manngerðum eyjum í Suður-Kínahafi.
Hér sést hvernig kínverski herinn hefur búið um sig á manngerðum eyjum í Suður-Kínahafi. Mynd frá 2017

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, áréttaði enn mánudaginn 13. júlí að Bandaríkjastjórn andmælti eindregið framgöngu Kínverja á Suður-Kínahafi.

Kínverjar krefjast þar ráða yfir risastóru svæði og hafa á undanförnum árum reynt að helga sér þau með því að reisa herstöðvar á litlum og óbyggilegum klettaeyjum auk þess að áreita skip og sjómenn að sögn stjórnvalda nágrannalanda.

Þetta er gömul útstöð Kínverja sem vikið hefur fyrir manngerðum flugherstöðvum og herskipahöfnum.
Þetta er gömul útstöð Kínverja sem vikið hefur fyrir manngerðum flugherstöðvum og herskipahöfnum. Mynd frá 1995.

„Í dag ítrekum við stefnu Bandaríkjanna vegna mikilvægs hluta Indlandshafs og Kyrrahafs – Suður-Kínahafs. Við lýsum yfir: Krafa stjórnvalda í Peking um eignarhald á auðlindum sjávar í stærstum hluta Suður-Kínahafs er algjörlega ólögmæt og sama á við um áreitnina sem Kínverjar beita til sölsa svæðunum undir sig,“ segir meðal annars í yfirlýsingu sem Mike Pompeo undirritar. Í lok hennar segir:

„Heimurinn mun ekki líða stjórnvöldum í Peking að nota Suður-Kínahaf sem eigið heimsveldi á hafi úti.“

Fyrir fjórum árum komst Alþjóðagerðardómurinn í Haag að þeirri niðurstöðu að tilkall Kínverja til svæðisins og framganga gagnvart öðrum löndum bryti gegn alþjóðareglum.

Kínverjar viðurkenndu ekki niðurstöðu dómaranna og hafa haldið sínu striki.

Frá því að dómurinn féll árið 2016 hafa Bandaríkjamenn oftar en einu sinni kveðið fast að orði í gagnrýni á háttalag Kínverja á hafsvæðinu en aldrei eins afdráttarlaust og í yfirlýsingunni frá 13. júlí.

Viðbrögð kínverska sendiráðsins í Washington DC sýna að Kínverjar halda fast í fyrri stefnu þrátt fyrir yfirlýsingu Pompeos.

„Ásakanirnar eru algerlega tilhæfulausar. Kína hafnar þeim af þunga,“ segir í yfirlýsingu sendiráðsins að sögn BBC og þar eru Bandaríkjamenn einnig sakaðir um að „rangtúlka staðreyndir og alþjóðalög“.

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …