Home / Fréttir / Stýriflaugar eyðilagðar á Krímskaga

Stýriflaugar eyðilagðar á Krímskaga

Aðfaranótt þriðjudagsins 21. mars var gerð drónaárás á bæinn Dzjankoj á Krímskaga. Varnarmálaráðuneyti Úkraínu segir að rússneskar stýriflaugar hafi eyðilagst í árásinni. Þær hafi verið um borð í járnbrautarlest á leið til hafnar þar sem setja átti flaugarnar um borð í herskip rússneska Svartahafsflotans.

Úkraínskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa birt myndskeið á Twitter og   eiga þau að sýna sprengingarnar. Í frétt danska ríkisútvarpsins DR segir að hvorki fréttaritari þess né BBC eða The Guardian hafi getað staðfest heimildargildi myndskeiðanna.

Á vefsíðu DR birtist 21. mars frétt þar sem rætt er við Claus Mathiesen, lektor við Forsvarsakademiet, háskóla danska hersins, sem telur að Úkraínumenn hafi viljað granda stýriflaugunum. Hafi Rússar skotið niður dróna kunni þeir að hafa lent hér og þar í og við bæinn.

Úkraínumenn hafa ekki eignað sér árásina.

Anders Puck Nielsen sem einnig starfar við Forsvarsakademiet segir að hafi Úkraínumönnum tekist að eyðileggja rússneskar stýriflaugar með drónum sé það mikill fengur fyrir þá. Það minnki líkur á frekari stórárásum Rússa með slíkum flaugum á skotmörk í Úkraínu. Á þessu stigi átakanna þurfi Rússar mjög á þessum flaugum að halda. Mörgum þeirra hafi verið skotið frá skipum á Svartahafi á skotmörk í Úkraínu.

„Sumum flaugum Svartahafsflotans má skjóta á skotmörk í mörg þúsund kílómetra fjarlægð. Það er því unnt að nota þær til árása hvar sem er í Úkraínu,“ segir Anders Puck Nielsen. Nú séu þær einfaldlega ekki lengur í vopnabúri flotans á Krímskaga.

Hann segir að Rússar séu ekki aðeins í vandræðum með skotfæri eftir árásina. Hafi Úkraínumönnum tekist á þennan hátt að granda flaugunum með langdrægum drónum sé það ógnvekjandi nýmæli fyrir Rússa.

Claus Mathiesen bendir á í samtali við DR að þetta sé mjög vandræðalegt fyrir Rússa. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem í ljós komi hve veikur rússneski flugherinn sé. Áður hafi verið gerðar drónaárásir á rússnesk skotmörk og það meira að segja á herstöðvar innan Rússlands.

Í samtali við dönsku sérfræðingana í DR kemur fram að líklega hafi verið ráðist á kyrrstæða járnbrautarlest. Það hafi hugsanlega verið gert með drónum en einnig kunni sérsveit að hafa verið send inn á Krímskaga til að vinna skemmdarverk. Þá kunni árásin að hafa verið gerð bæði úr lofti og á landi.

DR segir að hafi Úkraínumenn í raun eyðilagt rússnesku stýriflaugarnar telji herfræðingarnir að þeir hafi gert Vladimir Pútin mikinn óleik á sama tíma og hann leggi höfuðkapp á að baða sig í ljósinu frá Xi Jinping, forseta Kína, á fundum í Moskvu. Úkraínumenn hafi unnið áróðurssigur auk alls annars.

Þá hafi þetta mikil áhrif á íbúa Krímskaga sem óttist meira um eigið öryggi en áður og treysti ekki lengur á varnarmátt Rússa.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …