
Í Jyllands-Posten segir sunnudaginn 7. febrúar að það sem blaðið kallar umdeildu dönsku smykkeloven, það er lögin um upptöku skartgripa hælisleitenda, hafi tekið gildi föstudaginn 5. febrúar. Þau hafi orðið til að þess að Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hafi verið teiknaður sem nazisti, litla hafmeyjan hafi fengið töng með skínandi gulltönn í höndina auk þess sem birst hafi mikil gagnrýni meðal annars frá Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna.
Blaðið segir að dómur almennings sé mildari en fjölmiðla og álitsgjafa. Í ljós hafi komið að meirihluti kjósenda í Þýskalandi, Finnlandi, Bretlandi og Frakklandi segi í könnun sem YouGov hefur gert í sjö löndum að hann vilji gjarnan að stjórnmálamenn sínir stigi svipað skref.
Fram kemur í könnuninni að í fimm af þessum sjö löndum er meiri stuðningur meðal almennings en í Danmörku við að gera skartgripi upptæka meðal flóttamanna til að standa straum af kostnaði við dvöl þeirra. Í Danmörku skiptist fólk í tvo hópa 38% með, 39% á móti lögunum.
Í Þýskalandi styðja 62% upptöku skartgripa og annars hjá hælisleitendum. Þar eru 18% á móti hugmyndinni, 22% í Finnlandi og 23% í Bretlandi en 39% Dana eru henni andvígir.
Aðeins í einu landi, Noregi, er andstaðan við upptöku eignanna meiri en í Danmörku, það er 43%. Norðmenn búa hins vegar við sambærileg lög og Danir en með lægri eignaþröskuldi en Danir, það má gera meira af eignunum upptækt í Noregi en Danmörku.
Norska ríkisútvarpið NRK segir að flóttamenn sem leita hælis í Noregi verði að standa straum af kostnaði við dvöl sína sé lausafé þeirra meira en 5.000 n.kr. virði, það er um 4.000 d.kr. en þröskuldurinn í Danmörku er 10.000 d.kr.