Home / Fréttir / Stríðsótti magnast í Úkraínu – mestu átök síðan 1945 segir Boris Johnson

Stríðsótti magnast í Úkraínu – mestu átök síðan 1945 segir Boris Johnson

Rússneskur vígdreki merktur Z til að greina á milli vina og óvina – þessi er skammt frá landamærum Úkraínu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræddi við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í síma sunnudaginn 20. febrúar. Fréttaskýrendur segja þetta hafa verið síðustu tilraunina til að finna diplómatíska lausn áður en Rússar ráðast inn í Úkraínu.

Að loknu 105 mínútna löngu símtalinu við Pútin ræddi Macron einnig í síma við Volodymyr Zelenskíj, forseta Úkraínu. Hann hefur hvatt vestræna leiðtoga til að falla frá „friðmælastefnu“ gagnvart Pútin.

Joe Biden Bandaríkjaforseti boðar til fundar með þjóðaröryggisráðgjöfum sínum sunnudaginn 20. febrúar. Sárasjaldgæft er að slíkir fundir séu á sunnudegi en skrifstofa forsetans segir að fundað sé nú vegna þess að árás kunni að verða gerð „á hverri stundu“.

Nú er talið að 150-190.000 hermenn séu í rússneska umsátursliðinu um Úkraínu.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagði við breska ríkisútvarpið, BBC, að Rússar væru að undirbúa „mesta stríð í Evrópu síðan 1945“ þegar síðari heimsstyrjöldinni lauk.

„Allt bendir til að þeir hafi þegar tekið til við að framkvæma áætlanir sínar. Fólk verður að átta sig á hvað þetta kann að kosta mörg mannslíf,“ sagði hann og vísaði þar til hugsanlegrar árásar á Kiev, höfuðborg Úkraínu.

Í breska blaðinu The Sunday Times er haft eftir heimildarmönnum innan breska hersins að Rússar gætu notað stýriflaugar við landamæri Úkraínu til að „rústa“ Kiev og bola ríkisstjórninni frá völdum. Hugsanlega kynnu þeir frekar að ráðast á borgina Kharkiv í norðausturhluta Úkraínu.

Af hálfu rússneskra yfirvalda er enn fullyrt að þau hafa ekki nein áform um innrás í Úkraínu. Tilraunaskot rússneska hersins laugardaginn 19. febrúar með flaugum sem geta borið kjarnorkusprengjur dró síður en svo úr spennu.

Á myndskeiðum sem bárust sunnudaginn 20. febrúar frá rússneska umsátursliðinu um Úkraínu sjást nú bryndrekar merktir með bókstafnum Z. Fylking Z-merktra skriðdreka er aðeins nokkra kílómetra frá landamærum Úkraínu, í Shebekinu.

Rob Lee, herfræðingur við King’s College London, segir á Twitter að með því að setja Z á ýmsa vígdreka hafi verið tekin ákvörðun um að skipta verkum milli þeirra.

Óljóst er hver er tilgangurinn með merkingunni en vangaveltur eru um að Z eigi að hindra að skotið sé á skriðdrekana af þeim sem yrðu með þeim í liði við innrás í Úkraínu. Ekki er útilokað að merkingin þjóni öðrum tilgangi. Bent er á að annar búnaður hermanna sé einnig merktur með Z.

Á Twitter-síðu hers Úkraínu segir að líklega þjóni merkingin þeim tilgangi að greina á milli vina og óvina eins og tíðkist þegar sótt sé fram til átaka.

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi tilkynntu sunnudaginn 20. febrúar að áfram yrði haldið sameiginlegum heræfingum Rússa og Hvítrússa. Fyrri yfirlýsingar voru á annan veg um að æfingunum lyki 20. febrúar. Skýringin á framhaldi æfinganna, sem hófust 10. febrúar, er að spenna hafi aukist í Úkraínu.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …