Home / Fréttir / Stríðsloka minnst í Moskvu: Kínaforseti í fremstu röð við hlið Pútíns

Stríðsloka minnst í Moskvu: Kínaforseti í fremstu röð við hlið Pútíns

Hersýning

Þess er minnst með mikilli hersýningu í Moskvu í dag, laugardaginn 9. maí, að 70 ár eru liðin frá lyktum síðari heimsstyrjaldarinnar sem kostaði 27 milljónir Rússa lífið. Ein frægasta ljósmyndin um lyktir styrjaldarinnar sýnir bandaríska og rússneska hermenn heilsast með handabandi við ána Elbu í Þýskalandi tveimur vikum fyrir uppgjöf nazista. Öflugustu herjum bandamanna hafði þá tekist að sækja að þýska hernum úr gagnstæðum áttum.

Þegar minnst var 60 ára afmælis stríðslokanna sat George W. Bush Bandaríkjaforseti við hlið Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Jacques Chirac Frakklandsforseti var einnig við athöfnina og Gerhard Schröder Þýskalandskanslari. Nú sat Xi Jinping Kínaforseti við hlið Pútíns á hátíðarpalli í Moskvu.

Í hátíðarræðu sinni minntist Pútín þeirra sovésku hermanna sem féllu í styrjöldinni og þakkaði einnig „þjóðum Bretlands, Frakklands og Bandaríkjanna fyrir framlag þeirra til sigursins“. Hann bætti hins vegar við: „Undanfarna áratugi eru grunnþættir alþjóðasamvinnu hins vegar æ oftar hafðir að engu. Við sjáum nú hvernig hugarfar hernaðar-blokka magnast.“

Hvarvetna um Rússland blakti fáni með tákni heilags Georgs, það er til marks um hugrekki og hreysti hermanna frá 18. öld. Það er einnig tákn þeirra sem berjast fyrir málstað Rússa í Úkraínu þar sem meira em 6.000 manns hafa fallið á rúmu ári. Blaðamaður EUobserver spurði Vladimír Tsjizhov, sendiherra Rússa gagnvart ESB, í vikunni hvers vegna þetta tákn bæri svona hátt núna. Sendiherrann svaraöi:

„Katrín mikla tók að veita St. Georgs-orðuna í styrjöldum Rússa við Ottóman-keisaradæmið. Fyrir um það bil 10 árum varð táknið vinsælt til minningar um þá sem börðust í föðurlandsstríðinu mikla… Orðan var til löngu áður en Krím varð hluti rússneska keisaradæmisins. Þetta má segja um fánann.“

Steve Gutterman hjá Radio Free Europe/Radio Liberty segir í tilefni hátíðarhaldanna í Moskvu að á tíma kalda stríðsins hafi myndin af hermönnunum við Elbu verði einskonar tákn þess sem sameinaði Bandaríkin og Sovétríkin þó þau beindu kjarnaflaugum sínum hvort gegn öðru.

Nú bregður hins vegar svo við að vegna spennu í samskiptum Bandaríkjamanna og Rússa vegna innlimunar Krímskaga í Rússland að nýjum bandamanni í síðari heimsstyrjöldinni er hampað af Kremlverjum – það er Kínverjum og samvinnu þeirra við Sovétmenn í stríðinu mikla.

Xi Jinping, forseti Kína, er fremstur þjóðhöfðingja sem heiðra Rússa með návist sinni hinn 9. maí 2015. Áróðursvél Kremlverja hefur lýst fjarveru Baracks Obama Bandaríkjaforseta og annarra vestrænna leiðtoga sem óvirðingu við fórnir Sovétmanna í stríðinu.

Til að minnast tímamótanna var efnt til ráðstefnu í Moskvu í vikunni um framlag Sovétríkjanna og Kína til sigurs í síðari heimsstyrjöldinni. Þar var lesið ávarp frá Vladimír Pútín þar sem hafnað var „kaldhæðnislegum tilraunum til að endurrita söguna til að þjóna pólitískum hagsmunum líðandi stundar“.

Ekki kom fram hjá Pútín hver reyndi að endurrita söguna en Aleksei Pushkov, bandamaður Pútíns og formaður utanríkismálanefndar Dúmunnar, neðri deildar þingsins, tók af allan vafa um að sökin væri hjá Bandaríkjamönnum. Hann benti hins vegar á að í tveimur höfuðborgum, Peking og Moskvu, væri að finna menn sem mundu sameiginlega snúast gegn þessari aðför að sögunni.

Steve Gutterman segir að með því að hampa Kínverjum sem bandamanni á stríðstímum á kostnað Bandaríkjamanna sé Pútín að koma því inn hjá almenningi að samstaða Rússa og Kínverja eigi sér djúpar rætur í nánu samstarfi í síðari heimsstyrjöldinni á sama tíma og Rússlandsforseti verði æ harðorðari um Bandaríkjamenn sem hættulega árásaraðila.

Gutterman segir staðreyndir lýsa flóknari veruleika. Þremur mánuðum eftir að stríðinu lauk í Evrópu og þremur dögum eftir að Bandaríkjamenn köstuðu kjarnorkusprengju á Hiroshima lýsti Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, Japönum stríð á hendur en þeir höfðu barist við Kínverja frá árinu 1937. Sovéski herinn sigraði síðan japanska herinn í Mansjúríu og Japanir gáfust upp á formlegan hátt 2. september 1945.

Sovétmenn og Kínverjar rituðu undir „vináttu- og bandalagssáttmála“ árið 1950. Á sjöunda áratugnum jókst spenna í samskiptum stjórnvalda ríkjanna. Til átaka kom á landamærum þeirra árið 1969 með mannfalli á báða bóga. Samskiptin komust ekki í viðunandi horf af nýju fyrr en eftir hrun Sovétríkjanna fyrir 25 árum.

Nú á tímum eiga Rússar og Kínverjar í útistöðum við Japani vegna ágreinings um ráð yfir eyjum og þrætuefna sem rekja má til síðari heimsstyrjaldarinnar. Pútín hefur leitað eftir fjárfestum frá Kína og að mörkuðum þar fyrir orku frá Rússlandi. Hann hefur hert sókn á þessum sviðum vegna efnahagsþvingana Vesturlanda gegn Rússum.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …