Home / Fréttir / Stríðsglæpir Rússa í Kerson afhjúpaðir

Stríðsglæpir Rússa í Kerson afhjúpaðir

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti ávarpar hermenn og almenning í Kerson.

Reuters-fréttastofan skýrði frá því mánudaginn 14. nóvember að fulltrúar stjórna Bandaríkjanna og Rússlands ræddu saman í Tyrklandi. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti heimsótti borgina Kerson 14. nóvember og hyllti hermennina sem frelsuðu borgina undan rússneska hernámsliðinu sem hafði verið þar síðan í mars 2022. Forsetinn hét því að haldið yrði áfram að endurheimta land frá Rússum.

Í rússneska blaðinu Kommersant er haft eftir heimildarmanni að fulltrúar frá Washington væru mánudaginn 14. nóvember í Ankara, höfuðborg Tyrklands, til viðræðna við fulltrúa frá Moskvu, þeirra á meðal Sergei Narjishkin, yfirmann SVR, stofnunar Rússa sem stjórnar njósnum utan Rússlands.

Í Kreml vildu menn hvorki játa né neita viðræðum í Ankara og tyrkneskir embættismenn létu ekkert hafa eftir sér. Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu saman í síma í október.

Zelenskíj ávarpaði úkraínska hermenn við opinbera byggingu á aðaltorginu í Kerson. „Hér sjáið þið öflugan her okkar. Skref fyrir skref hreinsum við land okkar, svæði sem eru hernumin tímabundið,“ sagði forsetinn. Hópur almennra borgara safnaðist saman á torginu og voru börn meðal þeirra sem hylltu forsetann og herinn.

„Við erum tilbúin fyrir frið – en okkar frið … Fyrir allt land okkar, allt landsvæði okkar,“ sagði Zelenskíj. Heyra mátti skotdrunur í fjarlægð þegar hann lauk máli sínu.

Forsetinn sagði rússneska hernámsliðið hafa framið stríðsglæpi, morð á saklausu fólki og brottnám þess.

„Við höfum fundið lík almennra borgar og hermanna,“ sagði hann í ávarpi að kvöldi 13. nóvember. Fyrsta rannsókn hefði þegar leitt í ljós grunsemdir um meira en 400 stríðsglæpi Rússa á Kerson-svæðinu. „Við brottför Rússa blasa við merki um samskonar grimmdarverk og þeir hafa unnið annars staðar þar sem þeir hafa farið inn í land okkar.“

Reuters fréttamenn hafa rætt við íbúa í Kerson og nágrenni síðan föstudaginn 11. nóvember þegar Rússar yfirgáfu borgina. Lýsa þeir voðaverkum rússnesku hermannanna sem hafi stundað fjöldamorð og mannrán.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sækir ekki fund leiðtoga G20-ríkjanna á Balí í Indónesíu sem nú er haldinn. Sendi hann Sergeij Lavrov (72 ára) utanríkisráðherra í sinn stað. Við komuna til Balí fór Lavrov í skyndi á sjúkrahús og sagt var að hann hefði fundið til fyrir hjarta. Rússneska sendinefndin segir þetta ósannindi. Lavrov sé við góða heilsu.

I Wayan Koster, landstjóri á Balí, sagði Reuters að Lavrov hefði farið í „skoðun“ á sjúkrahúsi en hann væri við góða heilsu. Rússar birtu síðan myndskeið af Lavrov þar sem hann sat í bol og stuttbuxum brosandi yfir skjölum sínum utan dyra í sólinni við sjóinn.

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …