Home / Fréttir / Stríðsglæpir Rússa í Kerson afhjúpaðir

Stríðsglæpir Rússa í Kerson afhjúpaðir

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti ávarpar hermenn og almenning í Kerson.

Reuters-fréttastofan skýrði frá því mánudaginn 14. nóvember að fulltrúar stjórna Bandaríkjanna og Rússlands ræddu saman í Tyrklandi. Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti heimsótti borgina Kerson 14. nóvember og hyllti hermennina sem frelsuðu borgina undan rússneska hernámsliðinu sem hafði verið þar síðan í mars 2022. Forsetinn hét því að haldið yrði áfram að endurheimta land frá Rússum.

Í rússneska blaðinu Kommersant er haft eftir heimildarmanni að fulltrúar frá Washington væru mánudaginn 14. nóvember í Ankara, höfuðborg Tyrklands, til viðræðna við fulltrúa frá Moskvu, þeirra á meðal Sergei Narjishkin, yfirmann SVR, stofnunar Rússa sem stjórnar njósnum utan Rússlands.

Í Kreml vildu menn hvorki játa né neita viðræðum í Ankara og tyrkneskir embættismenn létu ekkert hafa eftir sér. Varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu saman í síma í október.

Zelenskíj ávarpaði úkraínska hermenn við opinbera byggingu á aðaltorginu í Kerson. „Hér sjáið þið öflugan her okkar. Skref fyrir skref hreinsum við land okkar, svæði sem eru hernumin tímabundið,“ sagði forsetinn. Hópur almennra borgara safnaðist saman á torginu og voru börn meðal þeirra sem hylltu forsetann og herinn.

„Við erum tilbúin fyrir frið – en okkar frið … Fyrir allt land okkar, allt landsvæði okkar,“ sagði Zelenskíj. Heyra mátti skotdrunur í fjarlægð þegar hann lauk máli sínu.

Forsetinn sagði rússneska hernámsliðið hafa framið stríðsglæpi, morð á saklausu fólki og brottnám þess.

„Við höfum fundið lík almennra borgar og hermanna,“ sagði hann í ávarpi að kvöldi 13. nóvember. Fyrsta rannsókn hefði þegar leitt í ljós grunsemdir um meira en 400 stríðsglæpi Rússa á Kerson-svæðinu. „Við brottför Rússa blasa við merki um samskonar grimmdarverk og þeir hafa unnið annars staðar þar sem þeir hafa farið inn í land okkar.“

Reuters fréttamenn hafa rætt við íbúa í Kerson og nágrenni síðan föstudaginn 11. nóvember þegar Rússar yfirgáfu borgina. Lýsa þeir voðaverkum rússnesku hermannanna sem hafi stundað fjöldamorð og mannrán.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti sækir ekki fund leiðtoga G20-ríkjanna á Balí í Indónesíu sem nú er haldinn. Sendi hann Sergeij Lavrov (72 ára) utanríkisráðherra í sinn stað. Við komuna til Balí fór Lavrov í skyndi á sjúkrahús og sagt var að hann hefði fundið til fyrir hjarta. Rússneska sendinefndin segir þetta ósannindi. Lavrov sé við góða heilsu.

I Wayan Koster, landstjóri á Balí, sagði Reuters að Lavrov hefði farið í „skoðun“ á sjúkrahúsi en hann væri við góða heilsu. Rússar birtu síðan myndskeið af Lavrov þar sem hann sat í bol og stuttbuxum brosandi yfir skjölum sínum utan dyra í sólinni við sjóinn.

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …