Home / Fréttir / Stríðs-dróni frá Úkraínu springur í Króatíu

Stríðs-dróni frá Úkraínu springur í Króatíu

Sovésk könnunarflaug af Tu-141-gerð.

Stríðs-dróni sem virðist hafa flogið frá átakasvæði í Úkraínu yfir þrjú NATO-ríki áður en hann hrapaði til jarðar í þéttbýli í Zagreb, höfuðborg Króatíu, var hlaðinn sprengju sagði varnarmálaráðuneyti. Króatíu, sunnudaginn 13. mars.

Loftfarið var af sovéskri gerð og fór yfir Rúmeníu og Ungverjaland áður en það flaug inn í Króatíu og brotlenti nálægt stúdentagarði síðdegis fimmtudaginn 10. mars. Um 40 bílar skemmdust í öflugri sprengingu við brotlendinguna, ekki varð neitt manntjón.

Mario Banozic, varnarmálaráðherra Króatíu, fór á vettvang og sagði að þar hefðu fundist leifar af sprengiefni sem sýndu að þetta hefði ekki verið könnunarfar heldur fljúgandi sprengja.

Hann sagði óljóst hvort Rússar eða Úkraínumenn hefðu átt drónann. Leifarnar af honum bentu til þess að báðir stríðsaðilar í Úkraínu ættu að liggja undir grun.

Rannsóknarmenn flugslysa hafa tínt saman brot úr drónanum úr stórum sprengjugíg sem myndaðist við höggið, þar er meðal annars að finna skemmt svart box sem ætti að sýna flugleið drónans.

Fulltrúar króatískra stjórnvalda hafa gagnrýnt NATO fyrir að bregðast hægt við mjög alvarlegu atviki. Þeir velta fyrir sér hvort árvekni einstakra NATO-ríkja dugi til snöggra viðbragða verði hugsanlega ráðist á þau.

Af hálfu NATO er upplýst að með samræmdu loft- og eldflaugavarnarkerfi bandalagsins hafi verið fylgst með ferð loftfarsins. Embættismenn Króatíu segja að þeir hafi ekki verið látnir vita um hættuna og að NATO hafi fyrst látil frá sér heyra þegar blaðamenn leituðu þar svara við spurningum sem vöknuðu hjá þeim.

„Hefði þetta verið greint og snúist gegn því tímanlega í nágrannalöndum værum við ekki hér í dag,“ sagði Banozic:

„Við munum óska skýringa á því sem gerðist. Varnarmálaráðherrar Rúmeníu og Ungverjalands sögðust vera að meta það sem gerðist. Við bíðum eftir svörum þeirra,“ sagði varnarmálaráðherrann.

Að sögn rannsakenda í Króatíu var þarna á ferð ómönnuð vél af sovéskri Tu-141-gerð. Vélarnar voru notaðar til eftirlits í Rússlandi og Úkraínu á níunda áratugnum.

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …