Home / Fréttir / „Stríð“ er ekki lengur bannorð í Kreml

„Stríð“ er ekki lengur bannorð í Kreml

Að baki Vladimir Pútin er Dmitríj Peskov, talsmaður forsetans.

Nú, 22. mars 2024, hefur loks verið viðurkennt af opinberri hálfu í Rússlandi að stríð sé háð í Úkraínu en frá því að það hófst 24. febrúar 2022 með innrás rússneska hersins hefur henni verið lýst sem „sérstakri hernaðaraðgerð“ af ráðamönnum í Moskvu.

Þetta breytta orðalag sem nú er opinberlega notað af Dmitríj Peskov, talsmanni Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, auðveldar forsetanum og mönnum hans að kenna vestrinu um að háð sé stríð í Úkraínu og þar með réttlæta gífurlegan kostnað vegna hernaðarins fyrir rússneskum almenningi.

Í samtali við Berlingske föstudaginn 22. mars segir Peter Viggo Jakobsen, lektor við danska varnarmálaháskólann, Forsvarsakademiet:

„Þetta er ábending til Rússa um að þetta muni kosta mikið, standa lengi, það muni þrengja að mörgu í rekstri ríkisins og nauðsynlegt sé að fleiri fari til að berjast á vígvellinum.

Þeir neyðast til að réttlæta gjörðir sínar og skýra hvers vegna þetta taki svona langan tíma, hvers vegna þetta sé svona erfitt og hvers vegna enn hafi ekki unnist sigur.“

Þegar Dmitrij Peskov kynnti nýja orðalagið til sögunnar sagði hann meðal annars:

„Rússland á í stríði þar sem þátttaka af vestrænni hálfu hefur gert sérstöku hernaðaraðgerðina að stríði.“

Matilde Kimer, fréttaritari danska ríkisútvarpsins, DR, í Rússlandi og Úkraínu, er sömu skoðunar og Peter Viggo Jakobsen að þetta kunni að vera liður í að búa rússneskan almenning undir að senda verði fleiri hermenn á vígvöllinn. Margir hefðu sagt að eftir forsetakosningarnar yrði um nýja herkvaðningu að ræða.

Matilde Kimer býst við að bráðlega verði boð látin ganga til þúsunda og aftur þúsunda rússneskra karla um að þeir skrái sig í herinn.

„Ég held að þetta sé fyrirboði um beina herkvaðningarbylgju og orðavalið kann að veita stjórnvöldum ný lagaleg úrræði til að ákveða hverjir skuli sendir á vígvöllinn,“ segir Matilde Kimer.

Peter Viggo Jakobsen hefur þó meiri efasemdir en hún um markvissa herkvaðningu. Til hennar hefði verið gripið fyrr væri hún talin nauðsynleg, þótt vissulega þurfi að manna rússneska herinn betur.

Það sem ráði ákvörðun um hve margir séu kallaðir til vopna sé ástandið á rússnesku stríðsvélinni.

„Athuga verður hve mikið er til af vopnum fyrir nýju hermennina og hvort einhverjir geti þjálfað þá áður en þeir eru sendir til orrustu,“ segir Peter Viggo og einnig: „Það gagnar lítið að ráða yfir fjölda hermanna, eigi maður ekki vopn, tæki og föt og fleira. Þeir verða að falla inn í sameinaða framleiðsluferlið.“

 

Heimild: Berlingske

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …