Home / Fréttir / Strategískur herafli okkar er tilbúinn til bardaga, segir Pútin

Strategískur herafli okkar er tilbúinn til bardaga, segir Pútin

Hersýning á Rauða torginu í Moskvu 9. maí 2024.

„Rússar munu gera allt til að koma í veg fyrir heimsátök en þeir munu ekki leyfa neinum að ógna sér,“ sagði Vladimir Pútin sigurdaginn 9. maí 2024. „Strategískur herafli okkar er tilbúinn til bardaga.“

Ræðuna flutti Rússlandsforseti til að minnast loka annarrar heimsstyrjaldarinnar. Hátíðarhöldin 9. maí hafa í 24 ár verið meðal helstu árlegu merkisviðburða á valdaferli Pútins. Með strategískum herafla vísar Pútin til langdræga kjarnorkuheraflans, kjarnans í fælingarmætti Rússlands.

Að þessu sinni notaði forsetinn daginn til að ráðast á vestrið. Hann sakaði vestrænar elítur um að líta fram hjá því hve mikilvægu hlutverki Sovétmenn gegndu við að sigra fasismann í Evrópu.

Árið 2020 sagði prófessor Michael Clarke, aðstoðarforstjóri Strategic Studies Institute við Exeter-háskóla í Englandi, við Euronews að með hersýningunni  9. maí minntust Rússar „ekki aðeins stríðslokanna heldur sigurs Rússa á nazismanum. Þar sem stríðið gekk næstum að Sovétríkjunum dauðum“.

Um 8,6 milljónir sovéskra hermanna féllu í annarri heimsstyrjöldinni en á skránni yfir fallna almenna borgara er getið um 19 milljónir manna.

Sigur Rússa yfir Þýskalandi nazismans er eitt helsta sameiningartákn þeirra sem búa í Rússlandi.

„Sigurdagurinn sameinar allar kynslóðir,“ sagði Pútin í ræðu á Rauða torginu í Moskvu fimmtudaginn 9. maí. „Við höldum fram í krafti aldalangra hefða okkar og fullir sannfæringar um að saman munum við tryggja frjálsa og örugga framtíð Rússlands.“

Hann bar lof á rússneska hermenn við víglínuna í Úkraínu og sendi vestrinu tóninn með því að minnast enn einu sinni á kjarnorkumátt Rússa þegar hann sagði: „Strategískur herafli okkar er tilbúinn til bardaga.“

Í áranna rás hefur hlutur rússneska hersins í 9. maí-hátíðarhöldunum aukist jafnt og þétt. Auk skriðdreka og flugskeytavagna tóku um 9.000 hermenn þátt í sýningunni á Rauða torginu 2024, þar af voru um 1.000 frá vígvellinum í Úkraínu.

Þegar Pútin sendi her inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 notaði hann þau rök að nauðsynlegt væri að „afnazistavæða“ Úkraínu og hann kallaði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta ný-nazista.

Herfræðingar benda á að það standist ekki að réttlæta innrásina í Úkraínu með þessum rökum. Þau falli hins vegar að boðskap Pútins og manna hans á sigurdeginum 9. maí um nazistaógnina og sigurinn á henni.

 

Heimild: Euronews

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …