Home / Fréttir / Stórveldakeppni skapar Svíum hernaðarlega hættu

Stórveldakeppni skapar Svíum hernaðarlega hættu

Lena Hallin, forstjóri leyniþjónustu sænska hersins, Must.
Lena Hallin, forstjóri leyniþjónustu sænska hersins, Must.

Keppni milli stórveldanna vex og líkur á hernaðarátökum í nágrenni Svíþjóðar aukast segir í 2019 ársskýrslu leyniþjónustu sænska hersins, Must, sem var birt föstudaginn 13. mars.

„Um er að ræða undanhald lýðræðis, réttarríkisins, virðingar fyrir reglum þjóðaréttarins og fjölþjóðlegs samstarfs. Í þessu felst aukin hætta á hernaðarlegum atvikum og átökum sem í versta falli geta stigmagnast,“ segir í skýrslu Must.

Þá segir leyniþjónustan að eðli átaka í samskiptum ríkja sé að breytast. Oft sé ráðist úr launsátri og brugðist við ásökunum um árásir með því að hafna þeim og aðild að óhæfuverkum sem stunduð séu á mörgum ólíkum sviðum, bæði með hernaðarlegum og margvíslegum öðrum aðferðum. Margt af því sem gert er sé á mörkunum milli stríðs og friðar.

Bent er á að hernaðarleg umsvif verði sífellt meiri í nágrenni Svíþjóðar. Vegna meiri hervæðingar og tíðari heræfinga sé hætta á eitthvað fari úrskeiðis og stigmagnist.

„Þegar margar einingar eru á hreyfingu á sama svæði er hætta á að það komi upp misskilningur. Gagnsæi er því mikilvægt og að öllum sé gerð grein fyrir hver sé tilgangurinn og hvar og hvenær ætlunin er að æfa,“ segir Lena Hallin, forstjóri Must.

Því er spáð að Rússar haldi áfram að styrkja herafla sinn af krafti fram til 2025 þótt sjást hafi merki um að hægt hafi á uppbyggingunni miðað við það sem verið hefur.

Rússar leggja áherslu á langdræg vopnakerfi gegn skotmörkum á landi, sjó og í lofti. Auk þess endurnýja þeir orrustuþotur sínar. Þá þjálfa þeir hersveitir til að flytja sig með hraði við þröngar aðstæður.

Í skýrslunni er einnig bent á vaxandi þýðingu Kínverja þegar litið er á efnahagsmál og stjórnmál en ekki síður á sviði öryggismála.

„Kvikan í samskiptum Bandaríkjamanna, Kínverja, Rússa og ESB hefur áhrif á stöðuna í öryggismálum einnig í nágrenni Svíþjóðar. Hlutverk Kínverja og vaxandi hnattræn áhrif þeirra vegur jafnt og þétt þyngra fyrir Svíþjóð og Evrópu, einnig á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála. […] Við sjáum æ betur að viðskipti, fjárfestingar og aðgangur að tækni og upplýsingum eru tengd öryggishagsmunum,“ segir Lena Hallin, forstjóri Must.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …