Home / Fréttir / Stóru þýsku flokkarnir boða stjórnarsamstarf til 2021

Stóru þýsku flokkarnir boða stjórnarsamstarf til 2021

Martin Schulz, Horst Seehofer og Angela Merkel.
Martin Schulz, Horst Seehofer og Angela Merkel.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins fögnuðu miðvikudaginn 7. febrúar að tekist hefði samkomulag um samstarf stjórnarflokkanna í Þýskalandi á kjörtímabilinu til 2021. Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, SPD, og væntanlegur utanríkisráðherra sagði að með endurnýjun stjórnarsamstarfsins yrðu Þjóðverjar að nýju „virkir og leiðandi afl innan Evrópusambandsins“.

Á blaðamannafundi með forystumönnum kristilegu samstarfsflokkanna sagði Schulz að stjórnin mundi binda enda á „þvingaða aðhaldsstefnu“ í ríkisfjármálum. Taldi hann að tekist hefði að móta stefnu sem yrði hvati fyrir alla Evrópu og mundi blása nýju lífi í þýskt efnahagslíf.

Eftir að ljóst varð að SPD fengi ráðuneyti utanríkismála, fjármála og atvinnumála sagði Julian Reichelt, ritstjóri Bild: „Þetta er fyrsta SPD-ríkisstjórnin undir forsæti CDU-kanslara.“

Þjóðverjinn Martin Selmayr, áhrifamikill stjórnandi skrifstofu Jean-Claudes Junckers, forseta framkvæmdastjórnar ESB, fagnaði stjórnarsáttmálanum og sagði hann 170 bls. skjal um verkefni til fjögurra ára þar sem fyrsti kaflinn snerist um Evrópumál. Kaflinn er fimm bls. á lengd undir fyrirsögninni: Nýr áfangi fyrir Evrópu.

Otmar Issing, fyrrv. aðalhagfræðingur Seðlabanka evrunnar (SE), sagði í grein í Frankfurter Allgemeine Zeitung að í stjórnarsáttmálanum fælist brotthvarf frá þeirri hugmynd að evrópska samstarfið skyldi mótast af stöðugleika.

Fréttir um lyktir stjórnarmyndunarinnar birtust á vefsíðu vikuritsins Der Speigel og sjónvarpsstöðvarinnar ARD skömmu fyrir klukkan 10.00 að morgni miðvikudags 7. febrúar. Næsta skref er að niðurstaðan verður lögð fyrir 460.000 félagsmenn í Jafnaðarmannaflokknum (SPD) sem taka afstöðu til hennar í atkvæðagreiðslu. Verði hún samþykkt er stefnt að því að ný stjórn taki við fyrir páska, um hálfu ári eftir að kosið var.

Fulltrúar Kristilegra demókrata (CDU) Kristilegra í Bæjaralandi (CSU) og Jafnaðarmanna (SPD) hafa leitað samkomulags vikum saman en kosið var til þýska þingsins 24. september 2017. Flokkarnir sátu saman í ríkisstjórn fram að kosningunum en töpuðu fylgi – ekki síst jafnaðarmenn. Þeir vildu segja sig frá samstarfi við kristilega sem reyndu árangurslaust að mynda stjórn með græningjum og frjálsum demókrötum (FDP).

Lokarimman milli flokkanna snerist að venju um skiptingu ráðherraembætta. Nú fá jafnaðarmenn fjármálaráðuneytið í sínar hendur sem þeir telja mikilvægan sigur fyrir sig. Wolfgang Schäuble, fráfarandi fjármálaráðherra hefur verið kjörinn þingforseti. Hann þótti harðlínumaður í ríkisfjármálum. Fréttaskýrendur segja að jafnaðarmenn verði sveigjanlegri sem auðveldi samstarf við frönsku ríkisstjórnina en Emmanuel Macron Frakklandsforseti vill slaka á aðhaldskröfum við stjórn ríkisfjármála. Þá verður Horst Seehofer, leiðtogi CSU, innanríkisráðherra en hann vill harðari stefnu í útlendingamálum en Angela Merkel fylgdi á síðasta kjörtímabili.

Martin Schulz, leiðtogi SPD, verður utanríkisráðherra. Fyrir um það bil ári tók hann við forystu SPD eftir að hafa verið forseti ESB-þingsins. Fékk hann góðan byr í seglinn í upphafi en fylgið dvínaði fljótt og úrslit kosninganna voru hörmuleg fyrir SPD. Næst reynir á hvort flokkurinn styður hann til að setjast í stjórn með Merkel.

Meðal atriða í stjórnarsáttmálanum má nefna:

Fjölskyldusameining: Núverandi ríkisstjórn stóru flokkanna hefur afnumið rétt flóttamanna sem „njóta takmarkaðrar verndar“ til að fá fjölskyldur sínar til Þýskalands. Í nýja sáttmála flokkanna er sett 1.000 manna þak á mánuði á fjölda þeirra sem fá að koma á þessum forsendum til landsins. Þá er sett hámark á fjölda samþykktra hælisumsókna ár hvert og eiga þær að verða á bilinu 180.000 til 220.000.

Heilbrigðismál: Stjórnarflokkarnir setja á fót nefnd til að móta tillögur um gjaldtöku lækna fyrir opinbera og einkarekna þjónustu.

Húsnæðismál: Herða skal eftirlit með húsaleiguverði í því skyni að halda því í skefjum. Stefnt skal að nýbyggðum íbúðum skuli fjölga um 1,5 milljón á ári 2022 – nú eru þær um 280.000 á ári.

Vopnasala: Mælt er fyrir um bann við vopnasölu til þeirra ríkja sem taka þátt í stríðinu í Jemen og þar með til Sádí-Arabíu en þangað hafa Þjóðverjar selt vopn.

Glyphosate: Þetta snertir mikilvægt baráttumál SPD. Samið er um bann á efni sem notað er til að eyða meindýrum og talið er að hafi grandað gífurlegum fjölda skordýra í Evrópu undanfarin fáein ár. Erfðabreytingar við ræktun verða einnig bannaðar og stefnt er að aukinni dýravernd til dæmis með banni við tilraunum á dýrum.

Evrópa: Lagt er til að til sögunnar komi fjárfestingasjóður fyrir evru-svæðið. Jafnaðarmenn líta á ákvæði um hann sem endalok aðhaldsstefnunnar. Þá verður lögð áhersla á að skapa störf fyrir ungt fólk. Tryggja á jafnræði í skattlagningu á fyrirtæki einkum netrisa á borð við Google, Apple, Facebook og Amazon.

Ljósleiðaravæðing: Verja á milljarði evra í ljósleiðaravæðingu landsins alls. Setja á lög sem tryggja öllum aðgang að háhraðaneti árið 2015.

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …