Home / Fréttir / Stórt skref Finna í átt til NATO

Stórt skref Finna í átt til NATO

Sauli Niinistö, forseti Finnlands.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, efndu að morgni fimmtudags 12. maí til blaðamannafundar í finnsku forsetahöllinni og kynntu sameiginlega niðurstöðu sína um að aðild Finnlands að NATO myndi auka öryggi þjóðarinnar. Þá telja þau einnig að aðildin styrki Atlantshafsbandalagið (NATO) sjálft. Þau vona að sótt verði um aðild sem fyrst.

Samkvæmt finnskum stjórnlögunum fellur það undir Finnlandsforseta og utanríkis- og varnarmálanefnd finnska þingsins að taka formlega afstöðu til þess hvort Finnland sæki um aðild að NATO.

Fréttastofur segja að næsta skref til aðildar verði stigið sunnudaginn 15. maí. Þá leggi ríkisstjórnin fram tillögu til þingsins um NATO-aðildarumsókn. Málið verður á dagskrá þingsins mánudaginn 16. maí. Að lokinni samþykkt þingmanna er unnt að senda aðildarumsóknina.

Varnarmálanefnd þingsins hefur þegar birt álit sitt. Þar segir að öryggi Finna sé best borgið innan NATO.

Að Finnar sæki um aðild að NATO hefur legið í loftinu síðan Rússar gerðu innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þá gjörbreyttist afstaða finnsks almennings og stjórnmálamanna til NATO aðildar og nú segjast 76% aðspurðra vilja aðild. Spurningin um aðild að NATO hefur lengi verið rædd meðal finnskra stjórnmálamanna. Jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Sönnu Marin forsætisráðherra, hefur til þessa lagst gegn NATO-aðild og forsetinn sem er úr Samlingspartiet (mið-hægri) viljað stíga varlega til jarðar þótt flokkur hann hafi lengi verið hlynntur aðild.

Karsten Friis, sérfræðingur hjá Norsku utanríkismálastofnuninni, Norsk Utenrikspolitisk Institutt (NUPI), sagði við norsku NTB-fréttastofuna að niðurstaða finnsku ráðamannanna væri „mjög jákvæð fyrir norrænt öryggi og norskt öryggi“. Þá fælust „fjölmörg tækifæri fyrir miklu nánara norrænt varnarsamstarf“ ef Svíar færu sömu leið og Finnar. Allt bendir til að nú um helgina verði stigin mikilvæg skref á leið Svía í NATO.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, var í Helsinki miðvikudaginn 11. maí og skuldbatt Breta til að veita Finnum hernaðarlega aðstoð á hættustund. Á blaðamannafundi sem efnt var til vegna komu Johnsons var Sauli Niinistö forseti spurður hvort NATO-aðild Finna ögraði ekki Rússum. Forsetinn sagði að innrásin í Úkraínu hefði breytt öllu.

„Þeir ráðast inn í nágrannaríki sitt. Svar mitt er því að þeir geta þakkað sjálfum sér fyrir það sem gerist núna. Þeir ættu að líta í eigin spegil,“ sagði Niinistö.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …