Her Úkraínu segist hafa „brotist í gegnum“ varnir Rússa mánudaginn 29. ágúst þegar hann hóf sókn til að endurheimta Kherson-hérað í suðurhluta lands síns. Markmið sóknarinnar er að hrekja rússneskar hersveitir til baka yfir Dniper-fljót og binda enda á hernám þeirra á borginni Kherson.
Forsetaskrifstofa Úkraínu sagði þriðjudaginn 30. ágúst að hörkubardagar væru milli herja Úkraínumanna og Rússa við næstum alla víglínuna í suðri.
Úkraínumenn segjast hafa hrakið varnarlið Rússa við Kherson á brott. Rússar segjast hins vegar hafa staðist áhlaupið og valdið Úkraínumönnum „miklu tjóni“. Fréttastofan Euronews segist ekki geta sannreynt þessar fréttir.
Stjórnvöld í Kyív hvöttu þriðjudaginn 30. ágúst almenna borgara í Kherson og nágrenni að yfirgefa svæðið. Fyrir innrásina bjuggu 280.000 manns í Kherson. Af stórum borgum í Úkraínu féll hún fyrst í hendur Rússa eftir innrásina.
Svæðið umhverfis borgina er ekki síður mikilvægt hernaðarlega en hún sjálf. Í héraðinu er stundaður mikill landbúnaður auk þess sem það liggur að Krímskaga sem Rússar lögðu undir sig árið 2014. Þaðan hafa Rússar sent herafla til aðgerða í Úkraínu.
Suðursókn Úkraínuhers hófst eftir að dögum saman hafði verið skotið á hernaðarlega mikilvæga staði Rússa handan víglínunnar. Vopnabúr og samgönguæðar voru eyðilögð. Þá voru unnin skemmdarverk á herstöðvum Rússa á Krímskaga. Mikill ótti greip þá um sig meðal rússneskra ferðamanna á baðströndum skagans og streymdu þeir tug þúsundum saman aftur til Rússlands.
Að kvöldi mánudags 29. ágúst beindi Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti orðum í reglulegu sjónvarpsávarpi sínu sérstaklega til rússneskra hermanna og hvatti þá til að leggja á flótta. Her Úkraínu myndi reka þá aftur „að landamærunum“.
„Vilji þeir halda lífi – er þetta tíminn fyrir rússneska hermenn til að hlaupa á brott. Farið heim!“ sagði forsetinn. „Úkraínumenn ætla að endurheimta eignir sínar.“
BBC segir blaðamann hafa borið þessi ummæli Zelenskíjs undir Dmitríj Peskov, talsmann Rússlandsforseta. Hann sagði að „sérstaka hernaðaraðgerðin“ í Úkraínu gengi samkvæmt áætlun. Orðrétt sagði Peskov:
„Sérstöku hernaðaraðgerðinni er fram haldið, skipulega er að framkvæmd hennar staðið og í samræmi við gildandi áætlanir. Öll markmið munu nást.“