Home / Fréttir / Stórskemmd brú – skúrkur settur yfir innrásarliðið

Stórskemmd brú – skúrkur settur yfir innrásarliðið

Vladimir Pútin bætir heiðursmerki á Sergeij Surovikin , hershöfðingja, nýjan yfirmann rússneska innrásarliðsins.

Rússar hafa hert öryggisgæslu á Krímbrúnni umdeildu eftir að þar varð mikil sprenging laugardaginn 8. október, hrundi brúin að hluta þótt umferð lokaðist ekki alveg um hana.

Vladimir Pútin Rússlandsforseti gaf öryggislögreglu sambandsríkisins (FSB) að stjórna öryggismálum á brúnni sem tengir Rússland og Krímskaga. Hún er sýnilegasta táknið um að skaginn er hluti Rússlands eftir ólögmæta innlimun hans árið 2014.

Þrír týndu lífi í sprengingunni. Enginn hefur gengist við að standa að baki henni.

Rússneskir kafarar kynntu sér sunnudaginn 9. október skemmdir af völdum sprengingarinnar. Hluti brúarinnar féll í sundið sem tengir Azovhaf og Svartahaf.

Rússneskir embættismenn tóku það sem eyðilagðist af brúnni í sína vörslu. Strax var hafin viðgerð til að umferð hæfist að nýju um brúna sem varð að kvöldi laugardagsins.

Sprengingin sem varð daginn eftir að Pútin fagnaði sjötugsafmæli sínu er sársaukafullt högg fyrir Rússa. Brúin er í senn mikilvæg flutningaleið fyrir rússneska herinn sem berst í Úkraínu og táln um vald Rússa á Svartahafssvæðinu.

Rússar rekja sprenginguna til flutningabíls. Þeir hafa ekki skellt skuldinni á neinn en leppar Rússa á Krímskaga segja að um skemmdarverk Úkraínumanna sé að ræða.

„Ástandið er viðráðanlegt en óskemmtilegt, ekki banvænt,“ sagði Serigeij Aksjonov, rússneski landstjórinn á Krím, við blaðamenn. „Að sjálfsögðu snertir þetta tilfinningar margra og margir vilja eðlilega leita hefnda.“

Embættismenn Úkraínustjórnar hafa hæðst að Rússum vegna sprengjunnar án þess að segjast beint bera ábyrgð á henni.

Að undanförnu hafa Úkraínumenn hótað að ráðast á brúna og krafist þess að Rússar yfirgefi Krímskaga auk svæðanna sem rússneski herinn hefur lagt undir sig með innrásinni sem hófst 24. febrúar 2022.

Viðbrögð Úkraínumanna reittu Rússa til reiði og sagði Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að þau sýndu að Úkraínumenn væru í „eðli sínum hryðjuverkamenn“.

Brúin er lífæð fyrir rússneska hermenn sem berjast í suðurhluta Úkraínu og fyrir rússnesku flotahöfnina í Sevastopol.

Kirill Stremousov, vara-stjórnandi Rússa í Kherson héraði, segir að truflun umferðar á brúnni „hafi ekki mjög mikil áhrif“ á birgðir hersins en leiði samt til vandræða.

Tjón á þessu mannvirki sem öðrum þræði er ætlað að minna á mátt og yfirburði Rússa bætist við álitshnekki sem rússneski herinn hefur hlotið vegna hrakfara á vígvellinum.

Efasemdir magnast um að rússneska herstjórnin ráði lengur nokkru um framvindu mála, hún verði í raun að láta sér lynda að snúast gegn frumkvæði hers Úkraínu hvarvetna á vígvellinum. Rússar hafa til dæmis statt og stöðugt haldið því fram að enginn gæti ógnað öryggi þeirra sem um brúna færu eða mannvirkinu sjálfu.

James Nixey, sérfræðingur við bresku hugveituna Chatham House, segir við Euronews-fréttastofuna að hugsanlega geti Rússar gert við brúna en þeir geti hins vegar ekki varið hana þegar þeir séu að tapa stríðinu.

 

Nýr yfirmaður rússneska Úkraínuhersins

 

Vladimir Pútin skipaði laugardaginn 8. október nýjan hershöfðingja til að stjórna rússneska herliðinu í Úkraínu. Það hefur undanfarnar vikur á undir högg að sækja.

Fyrir valinu var Sergeij Surovikin (55 ára) sem stjórnaði á sínum tíma her Rússa í Sýrlandi. Þar var hann sakaður um að sýna grimmd og beita umdeildum aðferðum við herstjórnina, miskunnarlausum sprengjuárásum á almenna borgara á stöðum þar sem andstæðingar höfðu búið um sig.

Ahygli beindist fyrst að honum snemma á tíunda áratugnum þegar hann gaf fyrirmæli um að skotið skyldi á rússneska mótmælendur.

Surovikin er fyrsti hershöfðinginn sem hefur alla þræði innrásarliðsins í hendi sér. Til þessa hefur Surovikin verið í forystu „suður-liðsins“ í Úkraínu að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins. Áður en honum var falið að stjórna öllu innrásarliðinu var tveimur hershöfðingjum vikið til hliðar.

Hann tók við stjórn suður-liðsins fyrr í sumar og kom þá í stað Alexanders Dvornikovs sem gegndi stöðunni aðeins í nokkra mánuði.

Fréttaskýrendur segja að fortíð Surovikins sé svört. Hann hefur tvisvar setið í fangelsi vegna vopnasölu og síðan stjórnaði hann árás hermanna á mótmælendur árið 1991 þegar þrír féllu í valinn. Hann var ekki ákærður fyrir þessa árás þar sem Boris Jeltsín, þáv. Rússlandsforseti, taldi hann ekki hafa gert annað en hlýða fyrirmælum.

Í september 2017 tók hann við stjórn rússneska hersins í Sýrlandi. Í hans tíð breyttist stríðsgæfa sýrlensku einræðisstjórnarinnar og það tókst að endurheimta 50% lands úr höndum andstæðinga hennar.

Herfræðingar segja að Surovikin hafi snúið vörn í sókn í Sýrlandsstríðinu með því að beina sprengjuárásum mjög að almennum borgurum sem urðu mjög illa úti.

Hann hefur starfað í rússneska hernum í Tajikistan, Tsjetsjeníu og Afganistan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …