Home / Fréttir / Stórsigur Zelenskíjs í Úkraínu – Porosjenko játar ósigur

Stórsigur Zelenskíjs í Úkraínu – Porosjenko játar ósigur

 

Zelenskíj fagnar sigri í Kænugarði.
Zelenskíj fagnar sigri í Kænugarði.

Petro Porosjenko, forseti Úkraínu, viðurkenndi skömmu eftir að kjörstöðum var lokað sunnudaginn 21. apríl að hann hefði tapað fyrir Volodímíjr Zelenskíj gamanleikara sem aldrei hefur áður tekið virkan þátt í stjórnmálum. Í útgönguspám var Zelenskíj spáð stórsigri í seinni umferð forsetakosninganna.

Tölur í útgönguspánum sem reistar voru á könnun sem gerð var skömmu áður en kjördegi lauk (kl. 17.00 að ísl. tíma) sýndu að Zelenskíj hefði hlotið 73,2% atkvæða en Porosjenko 25,3%

Efrir að kjörfundi lauk sagði  Zelenskíj sigri hrósandi við stuðningsmenn sína:

„ Við gerðum þetta saman. Ég lofa að bregðast ykkur aldrei. Og þar sem ég hef ekki enn tekið við sem forseti get ég talað eins og venjulegur Úkraínumaður. Allir í fyrrverandi Sovétríkjunum ættu að líta til okkar og sjá að allt getur gerst.“

Zelenskíj lýsti framboði sínu á þann veg að þar færi „venjulegur maður sem kemur til að eyðileggja þetta kerfi“. Vísaði hann þar til þess að stjórnmálum og þjóðlífi Úkraínu í sovésku rústunum er lýst sem spilltu klíkuveldi í fimm ára hernaði við aðskilnaðarsinna með stuðningi Rússa.

Zelenskíj er 41 árs gamanleikari sem varð þjóðkunnur meðal Úkraínumanna þegar hann lék kennara sem varð óvart forseti í vinsælli sjónvarpsþáttaröð.

Porosjenko er 53 súkkulaðiframleiðandi. Hann hefur setið fimm ár sem forseti Úkraínu.

Zelenskíj háði kosningabaráttu sína að mestu á samfélagsmiðlum og lét í stórum dráttum hjá líða blanda sér í málefnalegar umræður. Það veitti honum byr í seglin að Úkraína stendur illa að vígi efnahagslega, spilling er landlæg og almenningur hefur fengið sig fullsaddan af átökum við aðskilnaðarsinna með stuðningi Rússa í austurhluta landsins.

Zelenskkíj segist styðja hugsanlega aðild Úkraínu að NATO en vill að þjóðin taki afstöðu til hennar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann krefst þess að Rússar skili Krímskaga til Úkraínu og greiði skaðabætur vegna innlimunar skagans árið 2014.

Hann hefur hvatt til beinna viðræðna við Rússa vegna átakanna í Austur-Úkraínu sem hafa kostað rúmlega 13.000 manns lífið. Moskvumenn hafa til þessa hafnað tillögum af þessu tagi. Þeir segja átökin innanríkismál Úkraínu og stjórnin í Kænugarði eigi að ræða við fulltrúa aðskilnaðarsinnanna.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2016 að stríðið í austurhluta Úkraínu væri „alþjóðleg vopnuð átök milli Úkraínu og Rússlands“.

Heimild: RFE/RL

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …