Home / Fréttir / Stórheræfing Rússa og Hvít-Rússa vekur spennu

Stórheræfing Rússa og Hvít-Rússa vekur spennu

Bryndrekar með fánum Hvíta-Rússlands og Rússlands.

Um þessar mundir eru allt að 200.000 hermenn, 80 herflugvélar, um 760 bryndrekar og 15 herskip á æfingum við Hvíta-Rússlands og hólmlendu Rússa við Eystrasalt, Kaliningrad. Rússneskir hershöfðingjar segja að í æfingunum felist skilaboð sem ekki sé unnt að misskilja.

„Ég tel víst að við munum með æfingunni Zapad-2021enn á ný reyna að sýna félögum okkar [í vestri] hvað ekki eigi að gera, að það eigi ekki að raska ró rússneska bjarnarins,“ sagði Andrej Kartapolov, vara-varnarmálaráðherra, við útvarpsstöðina Govorit í Moskvu. Kartapolov stjórnaði á sínum tíma rússneska hernum í Sýrlandi.

Á rússnesku er Zapad orðið fyrir vestur og fjórða hvert ár ár er heræfing undir þessu nafni í Rússlandi. Sérfræðingar segja að líta verði á æfinguna í ljósi stöðunnar í öryggismálum hverju sinni. Talið er að hún standi í viku og allt verði slétt og fellt í samræmi við áætlun.

Nú er staðan í samskiptum nágrannaþjóða Rússa við Hvíta-Rússland allt annað en góð og fyrr í sumar var ótti í Úkraínu við um 100.000 manna hersafnað Rússa við landamæri landsins og á Krímskaga. Rússar lögðu hann undir sig og innlimuðu fyrir rúmum sjö árum.

Þá er mikil spenna í samskiptum vestrænna ríkja við Hvíta-Rússland. Aleksander Lukasjenko einræðisherra í landinu hefur ögrað þremur NATO-ríkjum, Lettlandi, Litháen og Póllandi, sem eiga land að Hvíta-Rússlandi. Sendir hann farandfólk sem hann lætur fljúga til Hvíta-Rússlands frá Írak og Mið-Austurlöndum að landamærum ríkjanna þriggja og inn í þau, stjórnvöldum til vandræða og íbúum landanna til reiði.

Með þetta allt í huga er bent á að ekki sé unnt að líta Zapad-2021 sömu augum og sambærilegar æfingar áður. Nú sé til dæmis líklegt að meiri samþætting verði milli rússneskra og hvítrússneskra herja en áður.

Í greiningu bandarísku hugveitunnar Center for Strategic and International Study (CSIS) á Zapad-2021 segir að sumar rússneskar heræfingar þjóni ekki öðrum tilgangi en þjálfa þátttakendur. Með öðrum reyni Rússar að sýna að þeir séu til alls líklegir í þágu óbreytts ástands. Þar fyrir utan hafi æfingar áróðursgildi heima og á alþjóðavettvangi. Með Zapad-2021 sé líklega ætlunin að ná árangri á öllum þessum sviðum.

Smátt og smátt hefur fjarað undan samningum sem gerðir voru á níunda áratugnum um afvopnun og aðgerðir til að vekja traust. Vegna þessa er erfiðara en ella að gera sér grein fyrir hvað gerist í stórum heræfingum

Grunnregla er að bjóða skal erlendum fulltrúum að fylgjast með heræfingum séu þátttakendur í þeim fleiri en 13.000. Unnt er að losna undan þessari kvöð með alls kyns undanbrögðum, til dæmis með því að skipta æfingu í minni einingar.

Claus Mathiesen, lektor við danska varnarmálaháskólann og sérfræðingur í rússneska hernum, segir við Jyllands-Posten föstudaginn 9. september að samningar sem gerðir voru um heræfingar og eftirlit með þeim í kalda stríðinu virki ekki lengur.

Árið 2020 vörðu Rússar 66,8 milljörðum dollara til hermála. Var það 43% hækkun miðað við 2008 þegar núverandi hervæðing Rússa hófst. Hernaðarmáttur Rússa er ráðandi í austurhluta Evrópu og þeir verja 10 sinnum meira til hermála en t.d. nágrannarnir í Úkraínu.

Friðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi (SIPRI) segir að Rússar verji meira til hermála en Þjóðverjar, Frakkar eða Bretar en nái ekki 10% af útgjöldum Bandaríkjamanna.

Rússar hafa stundað hervæðingu sína með vaxandi leynd sem ýtir undir áhyggjur manna á Norðurlöndunum um hvað fyrir þeim vaki. Þess vegna muni vestrænir sérfræðingar fylgjast mjög náið með Zapad-21 og leggja mat hve náin samskipti herja Rússa og Hvít-Rússa eru. Þá er talið að í æfingunum verði gripið til net- og tölvuárása meðal annars til að stunda áróðursæfingar.

Meginliðið í Zapad-2021 æfingunum kemur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi en þar eru sveitir frá öðrum löndum, m.a. Kína og Indlandi,.

Claus Mathiesen segir forvitnilegt að sjá að Kínverjar eigi menn við heræfingar í nágrenni Danmerkur.

 

 

Heimild: Jyllands-Posten.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …