Home / Fréttir / Stórfundur þýskra Jafnaðarmanna samþykkir að gengið verði til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við Kristilega

Stórfundur þýskra Jafnaðarmanna samþykkir að gengið verði til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við Kristilega

Skipting sæta á þýska þinginu.
Skipting sæta á þýska þinginu.

Samþykkt var á fundi þýska Jafnaðarmannaflokksins (SPD) í Bonn sunnudaginn 21. janúar að ganga til lokaviðræðna við Kristilega demókrata (CDU/CSU) um myndun samsteypustjórnar.

Flokkarnir lögðu fram drög að stjórnarsáttmála 12. janúar sl. og samþykktu Jafnaðarmenn að halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum á grundvelli hans.

Alls voru 642 fulltrúar frá öllum sambandslöndum Þýskalands á fundinum í Bonn. Atkvæði féllu þannig að 362 samþykktu að halda áfram viðræðum við Kristilega en 279 höfnuðu því, það er 56% veittu umboðið.

Loka-stjórnarsáttmáli flokkanna verður lagður fyrir alla flokksfélaga SPD, um 440.000, til samþykktar eða synjunar. Vill Angela Merkel, kanslari Kristilegra, að niðurstaða í viðræðum flokkanna liggi fyrir 12. febrúar.

Stjórnmálaskýrendur segja að nú verði hugað að smáa letrinu í sáttaviðræðum flokkanna. Í sumum tilvikum geti reynst erfitt að finna málamiðlun. Martin Schulz, leiðtogi SPD, segir að Merkel verði að búa sig undir að á brattann verði að sækja. Minnt er á að Angela Merkel gefist ekki upp fyrr en í fulla hnefana þegar leitað sé lausna á stjórnmálavettvangi.

Verði Merkel að ósk sinni um að endanlegur stjórnarsáttmáli liggi fyrir 12. febrúar er líklegt að ný meirihlutastjórn flokkanna taki til starfa fyrir páska. Yrði það fjórða ríkisstjórnin sem hún leiddi, þriðja í samstarfi við SPD. Fyrst 2005 til 2009 og síðan frá 2013.

Þingkosningar í Þýskalandi voru 24. september 2017 og hefur Angela Merkel leitt starfsstjórn CDU/CSU og SPD síðan.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …