Home / Fréttir / Stóra njósnahneykslið í Danmörku að nýju í fréttum

Stóra njósnahneykslið í Danmörku að nýju í fréttum

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur.

Njósnastofnun danska hersins, Forsvarets etterretningstjeneste (FE) aðstoðaði Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) við að njósna um háttsetta stjórnmálamenn og embættismenn í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi sagði sunnudaginn 30. maí í fréttum danska ríkisútvarpsins, DR.

Samstarf FE og NSA var afhjúpað í fyrra sem „stóra njósnahneykslið“ í Danmörku þegar í ljós kom að Bandaríkjamenn höfðu aðgang að fjarskiptastrengjum sem gerði þeim kleift að njósna um bandamenn sína. Nú birtir DR upplýsingar með vísan til heimildarmanna með aðgang að rannsóknarskýrslu sem sett í skjalageymslu árið 2015 að njósnunum hafi markvisst verið beint að háttsettum stjórnmálamönnum.

Haldbestu upplýsingarnar um það sem gerðist eru frá árunum 2012-2014 en þá á NSA að hafa notað símanúmer nafngreindra stjórnmálamanna og æðstu embættismanna til að sigta upplýsingastrauminn. DR segir að fylgst hafi verið með tölvubréfasendingum, smáskilaboðum og símtölum.

Edward Snowden, gagnaþjófur innan NSA, sem leitaði hælis í Rússlandi, vakti árið 2013 fyrstur máls á þessum njósnum NSA um bandamenn Bandaríkjanna. Þá beindist athygli fjölmiðla að því sem sagði um þýska stjórnmálamenn það er Angelu Merkel kanslara og Frank-Walter Steimeier, þáv. utanríkisráðherra, núv, forseta Þýskalands.

Ríkisstjórnir Noregs og Svíþjóðar hafa nú óskað eftir opinberri skýringu á málavöxtum frá ríkisstjórn Danmerkur. Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði við SVT, sænska ríkisútvarpið sem vinnur með DR að málinu, að hann vilji fá að fullu upplýst allt sem snertir sænska ríkisborgara, fyrirtæki og hagsmuni. Frekari skref verði stigin í ljósi þess sem komi frá Dönum.

Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, tekur í sama streng í samtali við NRK, norska ríkisútvarpið, sem vinnur með DR að málinu. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, segir að Dönum beri að skýra nákvæmlega frá því hvað hér sé um að ræða. Bandaríkjamenn hafi enga ástæðu til að njósna um Norðmenn.

Þá hafa embættismenn sænska varnarmálaráðuneytisins stofnað til samskipta við starfsmenn ráðuneyta í Frakklandi og Þýskalandi til að málið verði sem best upplýst. Þá segir Peter Hultqvist að Bandaríkjastjórn verði einnig upplýst um óánægju Svía vegna þessara vinnubragða.

DR segir að Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, hafi í ágúst í fyrra fengið skýrslu í fjórum bindum um samvinnu FE við NSA. Skýrslan var unnin af Tilsynet med Efterretningstjenesterne, eftirlitsstofnun með starfi FE. Í fylgiskjölum með skýrslunni er að finna leynilega, innri skýrslu frá FE undir heitinu Dunhammer að sögn DR. Í þessari skýrslu er að sögn heimildarmanna DR að finna upplýsingar um hvernig NSA hefur notað samstarfið við FE til að njósna um háttsetta stjórnmálamenn og embættismenn í nágrannalöndum Danmerkur.

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …