Home / Fréttir / Stoltenberg vill verða seðlabankastjóri

Stoltenberg vill verða seðlabankastjóri

Jens Stoltenberg.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur sótt um embætti seðlabankastjóra Noregs eftir að hann fékk fyrirspurn frá norska fjármálaráðuneytinu í nóvember 2021 hvort hann gæti hugsað sér að senda inn umsókn um embættið sem losnar á næsta ári.

„Þetta er starf sem höfðar mjög til mín,“ segir í tilkynningu sem blaðafulltrúi Stoltenbergs sendi til norsku fréttastofunnar NTB þriðjudaginn 14. desember.

Jens Stoltenberg er 62 ára og meðal umsækjenda um bankastjórastöðuna er Ida Wolden Bache (48 ára), vara-seðlabankastjóri.

Í Dagens Næringsliv var á haustdögum haft eftir heimildarmönnum að Stoltenberg hefði áhuga á embættinu og mundi taka því vel yrði hann spurður hvort hann vildi sækja um það.

Alls eru 22 umsækjendur um embættið.

Jens Stoltenberg hefur verið framkvæmdastjóri NATO frá 1. október 2014 og er ráðinn til 30. september 2022. Hann hefur fengið vilyrði fjármálaráðuneytisins fyrir að geta gegnt starfinu hjá NATO til 1. október 2022 verði hann skipaður seðlabankastjóri.

Hann er hagfræðingur að mennt. Vann hann hjá norsku hagstofunni áður enn hann varð þingmaður og ráðherra, þ. á m. fjármálaráðherra um tíma í ríkisstjórn Thorbjørns Jaglands en Stoltenberg tók við af honum sem leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …