Home / Fréttir / Stoltenberg varar við afleiðingum ágreinings innan NATO

Stoltenberg varar við afleiðingum ágreinings innan NATO

 

Jens Stoltenberg
Jens Stoltenberg

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, ritar grein í The Guardian þriðjudaginn 19. júní sem endurspeglar áhyggjur yfir deilum milli forystumanna aðildarríkja bandalagsins. Ríkisoddvitafundur bandalagsins verður 12. júlí og í aðdraganda hans beinist athygli fjölmiðla að ágreiningi leiðtoga aðildarríkjanna, ekki síst Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

Stoltenberg segir að þjóðir NATO njóti friðar og farsælar eftir tæplega 70 ára samstarf undir merkjum bandalagsins en á stjórnmálasviðinu reyni á böndin sem tengi þjóðir Evrópu og Norður-Ameríku. „Um er að ræða raunverulegan ágreining milli Bandaríkjamanna og annarra bandalagsþjóða um mál eins og viðskipti, loftslagsbreytingar og íranska kjarnorkusamninginn,“ segir Stoltenberg og einnig:

„Þetta ósamkomulag er raunverulegt og hverfur ekki á svipstundu. Hvergi er meitlað í stein að Atlantshafssamstarfið blómstri öllum stundum. Það táknar þó ekki að upplausn þess sé óhjákvæmileg. Við getum viðhaldið því og notið alls þess sem það hefur að bjóða.

Til þess þarf pólitískan vilja, hugmyndaauðgi og alúð. Ég tel hins vegar að þrjár einfaldar ástæður séu fyrir því að samstarfið haldi áfram.

Í fyrsta lagi er ekkert nýtt að skoðanir séu skiptar. Þannig var það í Súez-deilunni 1956. Þannig var það 1966 þegar Frakkar hættu þátttöku í herstjórnakerfi NATO og bandalagið varð að flytja höfuðstöðvar sínar frá París til Brussel. Og þannig var það í Írakstríðinu árið 2003.[…]

Önnur ástæða þess að við getum viðhaldið Atlantshafstengslunum er staðan innan NATO um þessar mundir.

Að kalda stríðinu loknu þegar ógnin frá Sovétríkjunum minnkaði drógu Bandaríkjamenn og Kanadamenn smátt og smátt úr viðveru sinni í Evrópu og evrópsku aðildarþjóðirnar minnkuðu útgjöld sín til varnarmála. Þá var sagt að bandalagsríkin beggja vegna Atlantshafs nytu „friðar-ávinningsins“.

Nú er þróunin hins vegar allt önnur.

Bandaríkjamenn og Kanadamenn auka um þessar mundir skuldbindingar sínar í þágu evrópsks öryggis. Raunar er það svo að frá því að Trump-ríkisstjórnin settist að völdum hefur hún aukið bandarísk útgjöld vegna bandarísks liðsafla í Evrópu um 40%. Síðasti bandaríski skriðdrekinn yfirgaf Evrópu árið 2013 nú eru þeir komnir aftur sem hluti af alveg nýju bandarísku véla-stórfylki.

Hér stefnir ekki allt aðeins í aðra áttina. Evrópsku aðildarþjóðirnar með Breta í forystu þyngja róðurinn, þær verja einnig milljörðum meira til varnarmála og axla sína ábyrgð á öryggi Evrópu og Atlantshafs við hlið bandamanna sinna í Norður-Ameríku.

Þriðja og loka-ástæðan fyrir að ég vænti þess að pólitísku óveðursskýin hverfi er að grundvallarhagsmunir okkar krefjast samstöðu.

Tvær heimsstyrjaldir og kalt stríð hafa kennt okkur þetta: með því að standa saman eru Evrópa og Norður-Ameríka öflugri, öruggari og farsælli. Þess vegna börðust ungir bandarískir og kanadískir hermenn á vestur vígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni og þess vegna sóttu  synir þeirra fram á ströndum Normandí næstum 30 árum síðar.

Þar er einmitt þess vegna sem bandalagsríkin virkjuðu 5. gr. Atlantshafssáttmálans – greinina um sameiginlegar varnir okkar – aðeins nokkrum klukkustundum eftir 9/11 árásina, í fyrsta og eina skiptið í sögu okkar. Og það er þess vegna sem hundruð þúsunda evrópskra og kanadískra hermanna hafa sinnt þjónustu við hlið bandarískra hermanna í Afganistan til að brjóta alþjóðlega hryðjuverkahópa á bak aftur, meira en þúsund þeirra hafa týnt lífi.

Það þjónar grundvallarhagsmunum okkar enn og aftur að standa saman í varnarmálum. Þetta á alls ekki síður við núna en jafnan áður. Við okkur blasir meiri óvissa í öryggismálum en um langt skeið: alþjóðleg hryðjuverk, dreifing gjöreyðingarvopna, netárásir – og auðvitað Rússar sem hafa beitt afli gegn nágrönnum sínum, sem reyna að blanda sér í innri málefni okkar og virðast ekki víla fyrir sér að nota hernaðarleg eiturefni á götum borga okkar.

Að mínu mati eigum við sem Vesturlönd að vera sjálfsörugg. Við eigum að halda áfram að jafna ágreining okkar í milli – og sé ágreiningur fyrir hendi verðum við að minnka neikvæð áhrif hans á samvinnu okkar í öryggismálum. Við verðum halda áfram að vernda fjölþjóðlegar stofnanir eins og NATO og láta ekki hjá líða að tala máli alþjóðareglnanna sem hafa þjónað okkur svo vel í svona marga áratugi.“

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …