Home / Fréttir / Stoltenberg útilokar ekki aukna hervæðingu NATO nálægt Rússlandi

Stoltenberg útilokar ekki aukna hervæðingu NATO nálægt Rússlandi

Jens Stoltenberg ávarpar þátttakendur í heræfingum NATO í Portúgal.
Jens Stoltenberg ávarpar þátttakendur í heræfingum NATO í Portúgal.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi í Portúgal fimmtudaginn 5. nóvember að NATO yrði að styrkja stöðu sína allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs vegna hernaðarumsvifa Rússa sem gætu gert þeim kleift að hafa lykilsvæði á valdi sínu á hættutímum.

Til blaðamannafundarins var efnt í tengslum við hinar miklu heræfingar, Trident Juncture, sem efnt er til um þessar mundir undir merkjum NATO á Spáni og í Portúgal. Stoltenberg sagði að huga þyrfti að frekari aðgerðum til að auka öryggiskennd NATO-þjóðanna í austurhluta Evrópu. Þeim stæði ekki á sama um yfirgang Rússa eftir íhlutun þeirra í Úkraínu.

Rússar hafa eflt herafla sinn í hólmlendunni Kaliningrad, á milli Póllands og Litháens. Þaðan geta þeir sótt að Eystrasaltsríkjunum úr vestri. Þá hafa Rússar styrkt stöðu sína við Svartahaf með innlimun Krímskaga í mars 2014. Þeir hafa einnig styrkt hernaðarlega stöðu sína við Miðjarðarhaf með því að senda hergögn og liðsafla til stuðnings gömlum bandamanni sínum, Bachar al-Assad Sýrlandsforseta.

Í ljósi alls þessa taldi Stoltenberg hættu á að Rússar hefðu getu til að ná hernaðarlega mikilvægum stöðum á vald sitt og NATO yrði að tryggja að það gæti sinnt skyldum sínum sem varnarbandalag við þessar nýju aðstæður.

„Hér er um að ræða hervæðingu sem gerir Rússum kleift að framfylgja því sem margir sérfræðingar kalla Anti-Access/Area Denial (A2/AD) (lokun og yfirráð svæða)“, sagði framkvæmdastjórinn. Nú stæði NATO frammi fyrir því hvernig ætti að takast á við þessa stöðu á Eystrasalti, Svartahafi og Miðjarðarhafi.

Eins og sagt var frá hér á síðunni föstudaginn 6. nóvember komu forsetar frá níu NATO-ríkjum í austurhluta Evrópu saman í vikunni í Búkarest og ályktuðu um nauðsyn meiri aðgerða af hálfu NATO gegn linnulausum yfirgangi Rússa. Litið er á ræðu Stoltenbergs í því ljósi og hann vilji koma til móts við sjónarmið forsetanna þrátt fyrir samkomulag við Rússa frá 1997 um að NATO stigi varlega til jarðar og opni ekki herstöðvar nálægt Rússlandi.

Stoltenberg sagði að mestu skipti að „við höfum herafla þar“ og hann sá engan raunverulegan mun á varanlegum og bráðabirgða herstöðvum. NATO hefur sent meiri hreyfanlegan herafla, landher, skip og flugvélar á þessar slóðir eftir að hættuástandið skapaðist í Úkraínu.

NATO hefur komið á fót litlum herstjórnum í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Ungverjalandi, Búlgaríu og Rúmeníu og flutt hergögn til geymslu í þessum löndum.

„Við höfum þegar aukið viðbúnað okkar og veltum fyrir okkur hvort hann skuli aukinn enn frekar,“ sagði Stoltenberg, málið yrði rætt á leiðtogafundi NATO í Varsjá í júlí 2016.

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …