Home / Fréttir / Stoltenberg: Úkraínumenn eiga rétt til NATO-aðildar

Stoltenberg: Úkraínumenn eiga rétt til NATO-aðildar

Jens Stoltenberg o Volodymyr Zelenskíj á blaðamannafundi í Kyív 29. apríl 2024.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO; heimsótti Kyív, höfuðborg Úkraínu, mánudaginn 29. apríl. Hann sagði að Úkraína yrði aðili að NATO og braut þjóðarinnar yrði ekki breytt. Bandalagið myndi áfram standa að baki Úkraínumönnum gegn innrásarher Rússa. Ráðamenn í Moskvu ættu að átta sig á að þeir myndu ekki sigra í stríðinu.

Framkvæmdastjórinn bar lof á Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta fyrir forystu hans og Úkraínuher og þjóðina fyrir hugrekki. Hann sagði hins vegar að forysta og hugrekki dygðu ekki ein til að brjóta rússneska herinn á bak aftur; til þess þyrfti þjóðin einnig vopn og skotfæri.

Stoltenberg viðurkenndi að alvarlegar tafir á aðstoð hefðu haft alvarlegar afleiðingar á vígvellinum. „Úkraínumenn hefur mánuðum saman skort byssur … færri rússneskum flaugum og drónum hefur verið grandað og Rússum hefur tekist að færa víglínuna framar,“ sagði Stoltenberg. „Það er þó ekki of seint fyrir Úkraínumenn að hafa betur. Meiri aðstoð er á leiðinni.“

Zelenskíj gerði fyrir skömmu varnarmálaráðherrum NATO-ríkjanna ljóst hver væri staða Úkraínumanna á fundi í NATO-Úkraínuráðinu. „Og þeir ákváðu að auka stuðning okkar,“ sagði Stoltenberg. Hann fagnaði einnig ákvörðun Bandaríkjamanna um að veita Úkraínumönnum meira en 60 milljarða dollara í aðstoð, þar fyrir utan hefðu Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar heitið stuðningi. „Ég á von á frekari tilkynningum síðar,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Á sameiginlegum blaðamannafundi minntust Stoltenberg og Zelenskíj á boðaðan ríkisoddvitafund NATO í Washington í júlí. „Bandalagsríkin hafa þegar samþykkt áætlun um meira hlutverk NATO við að samræma öryggisþátt aðstoðarinnar og þjálfun Úkraínumanna,“ sagði Stoltenberg. „Ég tel að við þurfum einnig öfluga áætlun um fjárstuðning til nokkurra ára. Til að sýna í verki að aðstoð okkar við Úkraínu er ekki aðeins á líðandi stundu heldur fyrirsjáanleg til lengri tíma. Ráðamenn í Moskvu verða að átta sig á því að þeir geta ekki sigrað. Og þeim dugar ekki að bíða þar til við förum.“

Þegar Stoltenberg vék að NATO-aðild Úkraínu sagði hann: „Úkraína á rétt á aðild að NATO. Úkraína verður aðili að NATO. Nú vinnum við að því að búa þannig um hnúta að braut ykkar til NATO-aðildar verði ekki breytt og Úkraína geti tafarlaust gengið í bandalagið þegar rétti tíminn til þess kemur.“

Fyrir utan fundinn með Úkraínuforseta ávarpaði Stoltenberg Verkhovna Rada, þjóðþing Úkraínu. Hann áréttaði mikilvægi þess að tryggja frelsi Úkraínu og staðfesti enn að Úkraínumenn berðust í þágu sömu lýðræðislegu gilda og væru þungamiðja samstarfsins innan NATO.

Blaðamaður spurði Stoltenberg hvers Úkraínumenn gætu vænst á væntanlegum ríkisoddvitafundi NATO í Washington í sumar, þegar fagnað yrði 75 ára afmæli bandalagsins. Hvort þeir fengju þá boð um aðild að bandalaginu.

Stoltenberg svaraði að hann teldi Úkraínu eiga rétt til aðildar að NATO og þess vegna legði hann mikla áherslu á að svo yrði. Um það yrðu öll aðildarríkin 32 að verða sammála og hann teldi að slík samstaða næðist ekki núna í júlí. Hann vonaðist hins vegar til þess að á fundinum kæmi fram að aðild Úkraínu nálgaðist og hún yrði að veruleika eins fljótt og verða mætti. Þar til að því kæmi yrði unnið að því að samlaga her Úkraínu og annað að kröfum NATO svo aðildin yrði virk strax og pólitísk skilyrði leyfðu.

Hann sagði að sú hernaðaraðstoð sem Úkraínumenn fengju nú ætti í senn að bæta stöðu þeirra í átökunum við Rússa en einnig að laga her Úkraínu að kröfum NATO. Það væri svo sannarlega unnið að því að búa í haginn fyrir aðildina. Á ríkisoddvitafundinum í Vilníus í fyrra hefði verið ákveðið að falla frá kröfum um tveggja skrefa aðildarferli, skrefið núna væri aðeins eitt. Þá hefði NATO-Úkraínuráðinu einnig verið komið á fót.

 

Heimild: NATO

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …