Home / Fréttir / Stoltenberg segir samskipti NATO við Rússa verri en nokkru sinni síðan í kalda stríðinu

Stoltenberg segir samskipti NATO við Rússa verri en nokkru sinni síðan í kalda stríðinu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að samskipti NATO og Rússa séu erfiðari núna en nokkru sinni frá því að kalda stríðinu lauk.

„Segja má réttilega að samskipti NATO við Rússa séu erfiðari núna en þau hafa nokkru sinni verið síðan í lok kalda stríðsins,“ sagði Stoltenberg við CNN-sjónvarpsstöðina fimmtudaginn 3. ágúst. Rekja mætti ástandið til tilrauna Rússa frá árinu 2014 til að grafa undan stöðugleika í Úkraínu.

Stoltenberg sagði: „Við lok kalda stríðsins vonuðum við að tækist að þróa náið samstarf við Rússa. Ólögmæt innlimun þeirra á Krímskaga árið 2014 og stöðugar tilraunir þeirra síðan til að grafa undan stöðugleika í austurhluta Úkraínu hefur hins vegar orðið til þess að samskipti NATO og Rússa hafa versnað umtalsvert.“

Stoltenberg sagði að samhliða því sem NATO brygðist við aukinni árásarhneigð Rússa vildi bandalagið ræða við fulltrúa rússneskra stjórnvalda um leiðir til að bæta samskiptin, það fylgdi tvíþættri stefnu „varna og viðræðna“. Framkvæmdastjórinn sagði:

„Á meðan við höldum styrk okkar og allir sjá hvað fyrir okkur vakir getum við einnig átt pólitískar viðræður við Rússa í von um að komast hjá stigmögnun og nýju köldu stríði.“

Miðvikudaginn 2. ágúst tók Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, þátt í leiðtogafundi ríkja við Adría-haf í Svartfjallalandi. Þar sagði hann meðal annars: „Eins og þið allir vitið halda Rússar áfram að reyna að breyta alþjóðlegum landamærum með valdi hér í Vestur-Balkanlöndunum.“

Fundinn sátu ríkisoddvitar fjögurra NATO-ríkja: Svartfjallalands, Króatíu, Albaníu og Slóveníu auk fulltrúa frá Serbíu, Bosníu, Makedóníu og Kosovó.

Degi síðar, fimmtudaginn 3. ágúst, sagði talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins að Bandaríkjamenn fylgdu „frumstæðri hugmyndafræði frá tíma kalda stríðsins“ með því að tala illa um Rússa.

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …