Home / Fréttir / Stoltenberg segir norðurslóðir ekki lengur lágspennusvæði

Stoltenberg segir norðurslóðir ekki lengur lágspennusvæði

Jens Stoltenberg flytur ræðu á þingi Norðurlandaráðs í norska stórþinginu 31. október 2023.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, flutti ræðu á þingi Norðurlandaráðs í Osló þriðjudaginn 31. október. Miðvikudaginn 1. nóvember er haft eftir Stoltenberg á norsku vefsíðunni High North News:

„Við höfum alltaf sagt að á norðurslóðum ríki lágspenna. Því miður er málum ekki lengur þannig háttað. Ein af afleiðingum stríðsins í Úkraínu er að spenna hefur einnig aukist á norðurslóðum.

Þar má sjá verulega aukna hervæðingu hjá Rússum.

Vegna stríðsins hefur samvinnan sem við höfum átt við Rússa í norðri veikst verulega, dregist saman, og orðið að engu á ýmsum sviðum. Það endurspeglast þannig í norðri sem gerst hefur annars staðar í Evrópu.

Norðurslóðir eru einnig megintenging milli Norður-Ameríku og Evrópu. Flutningaleiðirnar liggja um Norður-Atlantshaf, allt sem þar gerist skiptir þannig algjörlega sköpum fyrir tenginguna milli bandalagsríkjanna í Norður-Ameríku og Evrópu. Það hefur einnig leitt til þess að aðildarríki NATO hafa aukið viðbúnað sinn.“

Stoltenberg sagði að með aðild Finna og Svía að NATO styrktist staða bandalagsins í norðri:

„Af átta norðurskautsríkjum verða sjö NATO-ríki. NATO er til staðar í norðri og hefur styrkst á norðurslóðum. Við erum þar til að sýna að á þessum slóðum verður NATO ekki ógnað eða neytt til að gera eitthvað sem er andstætt hagsmunum okkar.“

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …