Home / Fréttir / Stoltenberg segir NATO hafa aukið öryggisgæslu við Ísland

Stoltenberg segir NATO hafa aukið öryggisgæslu við Ísland

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á fundi í Norræna húsinu 11. júní 2019.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á fundi í Norræna húsinu 11. júní 2019.

 

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að undir merkjum bandalagsins hafi aðildarþjóðirnar þegar aukið hernaðarlega viðveru sína á hafinu umhverfis Ísland. Það verði metið stig af stigi með hliðsjón af framvindu mála á norðurslóðum hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að treysta stöðu bandalagsins þar. Að því er Ísland varðar verði ekkert gert án samráðs og samvinnu við íslensk stjórnvöld.

Þetta kom fram á fjölmennum fundi sem Varðberg, Alþjóðamálastofnun HÍ og utanríkisráðuneytið stóðu að í Norræna húsinu síðdegis þriðjudaginn 11. júní. Fundinn í heild má sjá á þessari vefslóð: https://livestream.com/accounts/14889744/events/8713503

Í fyrirlestri sínum vék Stoltenberg að gildi Íslands og þátttöku Íslendinga í Atlantshafsbandalaginu (NATO) sem hann sagði mikið þótt ekki birtist það í hernaðarlegu framlagi. Borgaraleg þátttaka skipti miklu og í landinu væri mikilvæg aðstaða og mannvirki sem nýttust bandalagsþjóðunum og nú í vaxandi mæli vegna breyttra aðstæðna á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi eftir 2014.

Hann vék sérstaklega að pólitísku mikilvægi aðildar Íslands þegar litið væri til þess lykilhlutverks NATO að tengja saman þjóðir Norður-Ameríku og Evrópu í samvinnu um öryggismál. Án stofnaðildar Íslands að bandalaginu hefði þetta samstarf getað þróast á annan hátt. Ekkert færi á milli mála á hvaða forsendum Ísland væri aðili að NATO, það hefði komið skýrt og afdráttarlaust fram í ræðu Bjarna Benediktssonar, þáv. utanríkisráðherra, á stofnfundi bandalagsins 4. apríl, ræðu sem Stoltenberg sagðist hafa lesið.

Þá minnti hann á þátt Íslands í afvopnunarviðræðum á níunda áratugnum þar sem fund Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta og Mikhaíls Gorbatsjovs Sovétforseta hefði borið hæst. Hann hefði ári síðar getið af sér INF-samninginn sem nú væri í uppnámi vegna þess að Rússar hefðu brotið gegn honum.

Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, setti fundinn en Pia Hansson, forstjóri Alþjóðamálastofnunar HÍ, stýrði spurningum fundarmanna til Stoltenbergs.

Kjartan Gunnarsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, spurði framkvæmdastjóra NATO hvernig hann héldi að því yrði tekið ef íslensk stjórnvöld færu fram meiri og öflugri á fasta hernaðarlega viðveru í landi sínu. Hvort hann mundi styðja slíka ósk.

Jens Stoltenberg svaraði að í fyrsta lagi mætti þegar sjá aukna viðveru NATO á norðurslóðum og á Íslandi. Þjóðir eins og Bretar, Kanadamenn, Danir og Norðmenn legðu nú meira af mörkum hernaðarlega á þessum slóðum en áður. Haustið 2018 hefði verið efnt til æfingarinnar Trident Juncture, mestu heræfingar NATO síðan í kalda stríðinu og langstærstu heræfingarinnar á norðurslóðum. Í fyrsta sinn eftir áratuga hlé hefði bandarískt flugmóðurskip verið við æfingar á Norður-Atlantshafi. Allt væri þetta viðvera á norðurslóðum, ekki á Íslandi heldur í nágrenni landsins í lofti og á legi. Hann sagði meginsvar sitt vera að NATO hefði nú þegar aukið viðveru sína.

Hann minnti á mikilvægi Keflavíkurflugvallar vegna loftrýmisgæslu og sem bækistöðvar fyrir kafbátaleitarflugvélar. Hér á landi væru mannvirki, fjarskiptabúnaður og flugvellir sem gerðu herjum NATO-ríkjanna kleift að sinna verkefnum og aðgerðum í þágu Íslands og alls bandalagsins. Aukin viðvera af hálfu NATO væri staðreynd og hún væri áréttuð með nýrri flotaherstjórn NATO í Norfolk í Bandaríkjunum.

Ætíð yrði lagt mat á hve viðveran á Íslandi þyrfti að vera mikil, þetta yrði að sjálfsögðu ávallt gert með íslenskum stjórnvöldum, ekkert væri unnt að samþykkja í NATO í þessu efni án samþykkis Íslendinga. Þetta væri stöðugt endurmat stig af stigi á vettvangi NATO en þótt ákvarðanir snertu öryggi Íslands gætu þær snúist um að auka viðveru umhverfis landið en ekki endilega í landinu sjálfu.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …