Home / Fréttir / Stoltenberg segir eiturefnaárásina einsdæmi í sögu NATO – hvetur til árvekni gegn Rússum

Stoltenberg segir eiturefnaárásina einsdæmi í sögu NATO – hvetur til árvekni gegn Rússum

Jens Stoltenberg kynnir ársskýrslu NATO.
Jens Stoltenberg kynnir ársskýrslu NATO.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, kynnti ársskýrslu bandalagsins fyrir árið 2017 fimmtudaginn 15. mars. Á blaðamannafundinum vék hann einnig að beitingu taugaeiturs í Salisbury á Englandi. Hann sagði að aldrei fyrr hefði það gerst frá því að NATO var stofnað árið 1949 að taugaeitri hefði verið beitt til árásar í aðildarríki bandalagsins. Stoltenberg sagði öll bandalagsríkin sammála um að þarna hefði átt sér stað brot á alþjóðareglum og samningum og þau hefðu hvatt Rússa til að upplýsa málið.

Hann sagði að skoða yrði árásina „í ljósi þess að í mörg ár hafa Rússar sýnt af sér forkastanlega hegðun“. Þar mætti nefna „ólöglega innlimun Krímskaga og hernaðarlegan stuðning við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Hersetu í Moldóvu og Georgíu gegn vilja þessara þjóða. Íhlutun í Svartfjallalandi og annars staðar í Vestur-Balkanlöndunum. Tilraunir til að misnota lýðræðislegar kosningar og stofnanir. Auk hervæðingar frá norðurhluta Evrópu til Mið-Austurlanda.“

Hann varaði einnig við afleiðingum þess „skilin verði ógreinilegri“ milli hernaðar með kjarnorkuvopnum og hefðbundnum vopnum. Þetta fæli í sér „lækkun á þröskuldi Rússa við beitingu kjarnorkuvopna“.

Stoltenberg sagði að afstaða NATO til Rússa mótaðist af „festu, varnaraðgerðum og meðalhófi“. Það væri ekki markmið NATO að eiga jafnmarga skriðdreka, eldflaugar og dróna og Rússar. Hann sagði að bandalagið mundi leita eftir innihaldsríkum viðræðum við Rússa. Það kynni að reynast erfitt en væri bráðnauðsynlegt til að auka gagnsæi og draga úr hættu.

Í árskýrslu NATO fyrir árið 2017 kemur fram að bandalagsríkin hafa aukið þátttöku sína í sameiginlegum aðgerðum undanfarin misseri. Á árinu 2017 tóku rúmlega 23.000 hermenn þátt í verkefnum undir fána NATO en þeir voru tæplega 18.000 árið 2014 áður en Rússar brutu alþjóðalög með innlimun Krímskaga og Daesh (Ríki íslams) lét að sér kveða af þunga.

Jens Stoltenberg benti á að þessar tölur sýndu um 30% fjölgun í liðsafla undir merkjum NATO.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …