Home / Fréttir / Stoltenberg sakar Rússa um „skepnuskap“ við upphaf NATO-fundar

Stoltenberg sakar Rússa um „skepnuskap“ við upphaf NATO-fundar

Pedro Sánchez og Jens Stoltenberg við upphaf NATO-fundar í Madrid.

Úkraínumenn standa frammi fyrir meiri „skepnuskap“ en sést hefur í Evrópu síðan í síðari heimsstyrjöldinni, sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, þegar hann lýsti afleiðingum innrásar Rússa í Úkraínu við upphaf sögulegs ríkisoddvitafundar NATO í Madrid þriðjudaginn 28. júní.

Ummæli Stoltenberg féllu daginn eftir að Rússar réðust á fjölsótta verslanamiðstöð í bænum Krememstjúk í miðhluta Úkraínu og felldu að minnsta kosti 18 manns samkvæmt bráðabirgða talningu. Leiðtogar G7-ríkjanna lýstu á árásinni sem „stríðsglæp“ á fundi sínum í Bæjaralandi 27. júní.

Stoltenberg sagði að Rússar beittu orku sem vopni gegn Evrópuþjóðum. Hann sagði að innrás Rússa hefði leitt til „grundvallar umskipta“ á varnarstefnu NATO. Aðildarríkin yrðu að auka útgjöld sín til varnarmála. Á fundinum í Madrid yrði mótuð verkefnaáætlun fyrir bandalagið á „hættulegri og ófyrirsjáanlegri heimi“.

Á NATO-fundinum í Madrid er þess einnig vænst að samþykkt verði „alhliða áætlun um aðstoð“ við Úkraínumenn svo að þeir „geti nýtt rétt sinn til sjálfsvarnar,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi með Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, þriðjudaginn 28. júní.

Sánchez sagði að á ríkisoddvitafundinum gæfist tækifæri til að sýna „einhug um varnir lýðræðis og gildanna að baki því“ fyrir utan að verja „skipan alþjóðamála á grundvelli laga og reglna“.

Fundinum lýkur fimmtudaginn 30. júní og hann sækja meira en 40 ríkisoddvitar meðal annars frá Ástralíu, Japan, Nýja-Sjálandi og Suður-Kóreu.

Leiðtogar G7-ríkjanna komu beint til Madrid frá fundi sínum í Bæjaralandi. Þar skuldbundu þeir sig til að styðja Úkraínumenn „eins lengi og þörf krefst“. Í lokayfirlýsingu fundarins er lögð áhersla á áform um að herða enn og tafarlaust aðgerðir til að auka fjárhagslegar byrðar Rússa vegna stríðsins.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hvatti þriðjudaginn 28. júní til þess að á NATO-fundinum yrði sýnd „einhugur og styrkur“.

„Við verðum að standa sameinaðir í Madrid, sameinaðir um stuðning við Úkraínu, sameinaðir í ásetningi okkar, sameinaðir um varnir og öryggi austur vængs bandalags okkar. Öryggi meginlands Evrópu er í húfi,“ sagði Frakklandsforseti. Hann sakaði Rússa um að reyna að grafa undan alþjóðlegum stöðugleika með því að hindra flutninga á matvælum og orku. „Rússar geta ekki og mega ekki sigra,“ sagði Macron.

 

Pedro Sánchez og Jens Stoltenberg við upphaf NATO-fundar í Madrid.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …