
Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir að Rússar muni setja upp rúmlega 40 nýjar langdrægar kjarnorkueldflaugar á þessu ári að sögn BBC. Þar var einnig vitnað þriðjudaginn 16. júní í Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, sem sagði að í boðskap forsetans fælist „kjarnorkuvopnaglamur“ sem væri „óréttmætt“ og „hættulegt“.
Pútín segir þetta lið í víðtækri endurnýjun á herafla Rússlands en orð hans vekja meiri athygli en ella þar sem þau falla skömmu eftir að fréttir hafa birst um að Bandaríkjastjórn vilji flytja þungavopn til NATO-ríkja í austurhluta Evrópu,
Jens Stoltenberg sagði að yfirlýsing Pútíns væri „í samræmi við hegðun Rússa um nokkurt skeið – við höfum orðið vitni að meiri útgjöldum Rússa til varnarmála almennt og sérstaklega til kjarnorkuvopna“.
Hann sagði einnig:
„Þetta kjarnorkuvopnaglamur Rússa er óréttmætt, það skapar óstöðugleika og það er hættulegt. Við tökum mið af þessu og þetta er einnig ein af ástæðunum fyrir því að við aukum viðbragðsgetu og viðbúnaðarstyrk herafla okkar. Aðgerðir NATO á austurhluta varnarsvæðis síns eru innan hóflegra marka, þær eru í varnarskyni og í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.“
Í ræðu sinni sagði Pútín að nýju eldflaugunum yrði ekki grandað af tæknilega fullkomnustu gagneldflaugakerfum.
BBC segir að undir forsæti Vladimírs Pútíns hafi Rússar aukið hernaðarútgjöld sín verulega og nú sé unnið skipulega að endurnýjun herbúnaöar landsins. Nýju eldflaugarnar komi í stað eldri flauga en ekki viðbót við rússneska kjarnorkuherflann,
Rússar eiga nú um 4.500 kjarnaodda í eldflaugar. Þar af eru um 1.800 sem nota má til árása á fjarlægum slóðum með eldflaugum eða sprengjuflugvélum og eru þessar sprengjur geymdar í eldflaugastöðvum eða við flugvelli. Um 700 sambærilegar sprengjur eru í geymslum fjarri skotstöðvum og einnig 2.700 sprengjur í skammdrægar flaugar. Talið er að 3.500 sprengjur bíði þess að verða gerðar óvirkar vegna aldurs en þær eru þó enn til taks.