Home / Fréttir / Stoltenberg lýsir áhyggjum vegna kafbátaumsvifa Rússa

Stoltenberg lýsir áhyggjum vegna kafbátaumsvifa Rússa

Rússneskur risa-kafbátur siglir inn í höfnina í St. Pétursborg sumarið 2017.
Rússneskur risa-kafbátur siglir inn í höfnina í St. Pétursborg sumarið 2017.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, lýsir áhyggjum sínum yfir umsvifum rússneskra kafbáta í viðtali við Frankfurter Allgemeine Sonntagszeitung (FAS) sunnudaginn 24. desember sem hann segir þau mestu síðan í kalda stríðinu. Hann varar við þróuninni grípi NATO ekki til gagnráðstafana.

FAS segir að innan NATO hafi menn áhyggjur af vaxandi umsvifum rússneskra kafbáta í Miðjarðarhafi og Atlantshafi. „Rússar hafa fjárfest gríðarlega í herflota sínum, einkum kafbátum. Frá 2014 hafa 13 nýir kafbátar verið afhentir. Umsvif rússneskra kafbáta hafa aldrei verið meiri en nú síðan í kalda stríðinu,“ sagði Jens Stoltenberg. Kafbátarnir væru alls staðar á sveim „einnig nálægt ströndum okkar“.

Framkvæmdastjórinn vísar til hættunnar af því að siglingaleiðirnar milli evrópskra NATO-ríkja og Norður-Ameríku verði rofnar. „Við erum bandalag þjóða beggja vegna Atlantshafs og við verðum þess vegna að geta flutt mannafla og hergögn yfir Atlantshaf. Við verðum að njóta öryggis á opnum siglingaleiðum.“

Stoltenberg bendir í þessu sambandi á áform bandalagsins um að koma á fót nýjum herstjórnum fyrir Atlantshaf og flutninga innan Evrópu. Hlutverk beggja herstjórna verður að tryggja flutning manna og búnaðar vaxi spenna í samskiptum við Rússa. Á árinu 2018 verða teknar ákvarðanir um aðsetur og skipulag herstjórnanna.

Jens Stoltenberg bendir á nauðsyn þess að NATO-ríkin efli flotastyrk sinn. „Eftir að kalda stríðinu lauk dró NATO úr styrk sínum á höfunum, einkum vörnum gegn kafbátum. Þjálfun við kafbátaleit er minni en áður og dregið hefur úr hæfni hennar.“

Í FAS segir að framkvæmdastjóri NATO hafi ekki áður opinberlega lýst áhyggjum vegna rússneskra kafbáta. Gerði hann það í samtali við blaðamann FAS og The Washington Post og The Financial Times.

Birtist ítarleg grein um þetta efni í The Washington Post föstudaginn 22. desember undir fyrirsögninni: Rússneskir kafbátar á sveimi við lífsnauðsynlega neðansjávarstrengi. Veldur NATO taugatitringi.

Í fréttinni er vitnað í samtal við bandaríska flotaforingjann Andrew Lennon, yfirmanns kafbátaflota NATO sem segir:

„Við sjáum Rússa nú athafna sig neðansjávar í nágrenni við neðansjávarstrengi, við höfum aldrei séð þetta áður. Rússar hafa greinilega fengið áhuga á neðansjávarbúnaði NATO og NATO-ríkjanna.“

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …