
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hvetur til þess að ekki sé ýtt undir spennu á Eystrasalti heldur stuðlað að samtölum milli aðila eftir að stjórnvöld í Lettlandi kvarta undan óvenjulegum flugskeyta- og flotaæfingum Rússa í efnahagslögsögu landsins.
Stoltenberg var í Ottawa, höfuðborg Kanada, miðvikudaginn 4. apríl þegar hann var spurður um viðbrögð við þriggja daga flugskeyta- og flotaæfingum Rússa á Eystrasalti. „Við viljum ekki vígbúnaðarkapphlaup og erum staðráðnir í að svara á ákveðinn, fyrirsjáanlega og hófsaman hátt í varnarskyni,“ sagði Stoltenberg við blaðamenn í Ottawa. NATO vildi ekki nýtt kalt stríð heldur meiri samtöl við ráðamenn í Moskvu.
Stoltenberg áréttaði einnig í Ottawa að innan NATO hefðu menn áhyggjur af framgöngu Rússa eftir að þeir innlimuðu Krímskaga, ýttu undir ófrið í austurhluta Úkraínu, gengu í lið með Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og blönduðu sér í innanríkismál annarra landa.
Bandalagið rifti hernaðarlegri og borgaralegri samvinnu við Rússa eftir innlimun Krímskaga í mars 2014.
„Það er ástæðan fyrir því að NATO-ríkin og samstarfsríki þeirra brugðust við árásinni í Salisbury á þann veg sem þau gerðu. Vegna þess að þetta er ekki einstakt atvik,“ sagði Stoltenberg. Skoða yrði árásina í ljósi margra ára hegðunar Rússa. NATO vildi ekki einangra Rússa, þeir væru nágrannar NATO og yrðu það áfram þess vegna vildi NATO bæta samskipti við þá. Þeir hefðu rétt til að efna til heræfinga eins og aðrar þjóðir.
„Við stöndum vaktina og aukum einnig viðbragðsstyrk herafla okkar, einkum á Eystrasaltssvæðinu,“ sagði Stoltenberg þegar hann kom af fundi með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Trudeau sagði að Rússar héldu uppi andróðri gegn 450 kanadískum hermönnum undir merkjum NATO í Lettlandi. Kanadamenn mundu fylgjast með áhrifum og árangri vegna þvingananna gegn Rússum og þeir væru fúsir til að ræða hvort gera þyrfti meira á þessu sviði.
Maris Kucinskis, forsætisráðherra Lettlands, sagði í Riga, höfuðborg Lettlands, að Rússar sýndu vald sitt með heræfingunum sem væru undarlega nálægt landi sínu. Þær fara fram í efnahagslögsögu Lettlands rétt utan við 12 mílna landhelgi Lettlands.
Maris Riekstins, sendiherra Letta í Moskvu, sagði miðvikudaginn 4. apríl að í ljósi þess hvernig samskipti vestrænna stjórnvalda og rússneskra hefðu þróast mætti líta á þetta sem „ögrandi aðgerð“.
Kersti Kaljulaid, forseti Eistlands, hvatti til þess miðvikudaginn 4. apríl að fluttar yrðu bandarískar Patriot-eldflaugar og hermenn með þeim til Eistlands segir AFP-fréttastofan. Forsetinn sagði að tryggja yrði „trúverðungan“ fælingarmátt gagnvart Rússum.
Kersti Kaljulaid sat fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Washington þriðjudaginn 3. apríl ásamt forystumönnum Lettlands og Litháens og sagði að þar hefði verið áréttað að nauðsynlegt væri að verja landsvæði NATO-ríkja og öryggi NATO-hermanna.
Um heræfingar Rússa um þessar mundir sagði Kersti Kaljulaid: „Aðgerðir af þessu tagi eru í raun einstæðar. Ég held að líta verði á þær sem hluta af Salisbury-viðbrögðunum.“ Vestrænar ríkisstjórnir yrðu að sýna „strategíska þolinmæði“ þar á meðal með því að beita meiri efnahagsþvingunum gegn Rússum.