Home / Fréttir / Stoltenberg heimsækir Finna og Svía vegna NATO-aðildarinnar

Stoltenberg heimsækir Finna og Svía vegna NATO-aðildarinnar

Jens Stoltenberg og Sauli Niinistö

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, tók sunnudaginn 12. júní þátt í árlegum umræðufundi sem Sauli Niinistö Finnlandsforseti stjórnar, svonefndum Kultaranta-umræðunum, á sumarsetri sínu. Stoltenberg sagði að Finnland yrði aðili að NATO þrátt fyrir að Tyrkir gerðu athugasemdir vegna aðildarumsókna Finna og Svía.

Í aðdraganda þess að umsóknir Finna og Svía voru afhentar 18. maí var talið líklegt að þær yrðu endanlega samþykktar á ríkisoddvitafundi NATO í Madrid í lok þessa mánaðar. Stoltenberg sagði 12. júní að aldrei hefði verið litið á fundinn í Madrid sem loka-tímasetningu vegna umsóknanna.

Tyrknesk stjórnvöld saka Finna og Svía um að styðja kúrdíska uppreisnarmenn innan Tyrklands sem ógni öryggi Tyrkja og ríkis þeirra.

Stoltenberg sagði að á vegum NATO legðu menn hart að sér með Tyrkjum í leit að lausn.

„Við vinnum að þessu máli dag hvern í því skyni að finna lausn eins fljótt og kostur er,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Hann lagði jafnframt áherslu á að Tyrkland, með land bæði að Sýrlandi og Írak, skipti miklu fyrir varnarbandalagið og gegndi lykilhlutverki í baráttunni gegn hryðjuverkum. Þar hefðu verið framin fleiri hryðjuverk en í nokkru öðru NATO-landi.

Stoltenberg áréttaði að dyr NATO væru áfram opnar og Tyrkir stæðu ekki í vegi fyrir aðild Finna að bandalaginu.

„Tyrkir leggjast ekki gegn aðild. Tyrkir vekja máls á áhyggjuefnum sínum svo að unnt sé að vinna áfram að aðildinni. Ég er viss um að Finnland verður aðildarríki NATO,“ sagði Stoltenberg.

Á blaðamannafundi með Stoltenberg sagði Sauli Niinistö forseti að Finnar færu ekki í NATO ef vandi Svía vegna ágreinings við Tyrki yrði til þess setja umsókn Svía í uppnám.

Stoltenberg í Svíþjóð

Eftir fundinn með Finnlandsforseta hélt Jens Stoltenberg til Svíþjóðar og mánudaginn 13. júní tók hann þátt í blaðamannafundi með Magdalenu Andersson forsætisráðherra í Harpsund, sveitasetri ráðherrans.

Á blaðamannafundinum kom fram að þau höfðu rætt NATO-aðildarumsókn Svía, athugasemdir Tyrkja og hótanir um að hindra framgang umsóknar Svía.

„Við tökum óróa Tyrkja af alvöru,“ sagði Stoltenberg.

„Ég þakka öflugan stuðning þinn við NATO-umsókn Svía,“ sagði Magdalena Andersson. Hún sagði Svía einnig taka afstöðu Tyrkja af alvöru og þeir legðu sig fram um að leysa úr ágreiningi við þá.

 

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …