Home / Fréttir / Stoltenberg harðorður um Kínverja

Stoltenberg harðorður um Kínverja

Jens Stoltgenberg á fundi með blaðamönnum eftir 5. apríl 2023.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, veittist miðvikudaginn 5. apríl að Kínverjum og sakaði stjórnvöld þeirra um að leggja Rússum lið við útbreiðslu á útlistun þeirra á stríðinu í Úkraínu, fyrir að reyna að létta undir með þeim vegna efnahagsþvingananna og fyrir að reyna að grafa undan því að lög og réttur ráði í alþjóðasamskiptum.

„Kínverjar neita að fordæma árás Rússa, enduróma áróður Rússa og  hlaða undir efnahag Rússa,“ sagði Stoltenberg í lok utanríkisráðherrafundar NATO-ríkjanna.

Fundurinn markaði tímamót í sögu bandalagsins vegna þess að Finnar urðu 4. apríl formlega 31. aðildarþjóð NATO og var fáni þeirra dreginn að húni í fánaborg aðildarríkjanna við höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel.

Eftir fundinn varaði Stoltenberg Kínverja enn einu sinni við að láta Rússum í té vopn en kæmi til þess telja vestrænir embættismenn að það kynni að breyta gangi stríðsins.

Kínastjórn hefur lagt sig í líma við að hafna ásökunum  af þessu tagi en merki um sífellt nánari tengsl hennar við rússneska ráðamenn blöstu við á dögunum þegar Xi Jinping Kínaforseti heimsótti Vladimir Pútin Rússlandsforseta í Moskvu.

Stoltenberg sagði að það yrðu söguleg mistök með stóralvarlegar afleiðingar ef vopn færu frá Kína til Rússlands. Engar sannanir lægju fyrir um slíka vopnaflutninga en náið væri fylgst með þessum samskiptum.

Stoltenberg talaði hvað eftir annað um „alvarlegar afleiðingar“ þegar hann lýsti hugsanlegum viðbrögðum af hálfu NATO gegn Kínverjum án þess að skýra nánar hvað kynni að gerast.

„Það er engin ástæða til að fara í smáatriði en Kínverjar vita að afleiðingarnar verða alvarlegar,“ sagði Stoltenberg.

Hann gagnrýndi Kínverja fyrir „ágengna hegðun“ í Suður-Kínahafi, fyrir að brjóta lýðræðishreyfinguna í Hong Kong á bak aftur, fyrir njósnir um eigin borgara, fyrir truflanir í netheimum og stöðugar hótanir í garð Tævana.

Hann lýsti einnig áhyggjum vegna stækkunar langdrægs kjarnorkuherafla Kína og aðild þeirra að sameiginlegum eftirlitsferðum með rússneska hernum.

Stoltenberg sagði að þrátt fyrir meiri spennu í samskiptum við Kínverja en áður og alls kyns ágreiningsmál liti NATO samt ekki á Kínverja sem „andstæðinga“.

„Ágeng hegðun þeirra ögrar hagsmunum okkar, gildum okkar, öryggi okkar,“ sagði hann.

Það hefur verið vestrænum ríkisstjórnum kappsmál að fá Kínverja til að leggja sitt af mörkum til að binda enda á stríðið sem Vladimir Pútin hóf í febrúar 2022.

Kínverjar hafa verið beggja blands, hv att til þess að átökum verði hætt án þess að lýsa Rússum sem árásaraðilanum. Af hálfu stjórnvalda í Evrópu og Bandaríkjunum er litið á þessa afstöðu sem hliðholla Rússum og því hvetja þau Kínverja til að fordæma harðlega brot Rússa á alþjóðalögum.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …