
NATO verður að átta sig á áhrifum þess að Kínverjar láta meira að sér kveða um heim allan, þar á meðal á svæðum þar sem þeir kunna að ögra aðildarþjóðum NATO, sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, miðvikudaginn 7. ágúst á fundi hjá Lowy Institute í Sydney, Ástralíu.
Hann sagði að hefðinni samkvæmt hefði NATO beint athygli sinni að Rússum en nú létu Kínverjar til sín taka á þann hátt um heim allan að hefði áhrif á öryggismál vegna þess hve þeir beindu miklum fjármunum til að nútímavæða herafla sinn.
„Að hluta til vegna þess að Kínverjar nálgast okkur,“ sagði Stoltenberg. „Við sjáum þá á norðurslóðum. Við sjáum þá í Afríku. Við sjáum þá festa mikið fé í mikilvægum innviðum, einnig í Evrópu. Við sjáum þá í netheimum. Við sjáum einnig að útgjöld Kínverja til nútímalegra hergagna hafa skelfilegar afleiðingar fyrir okkur.“
Vaxandi sóknarþungi Kínverja, meðal annars á Suður-Kínahafi, hefur vakið áhyggjur um áform þeirra. Bandaríkjastjórn hefur hvatt til þess að NATO taki mið af nýjum hættum, þar á meðal frá Kína.
Fréttaskýrendur segja að í orðum Stoltenbergs megi heyra bergmál þess sem Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði fyrir ráðherrafund Norðurskautsríkjanna í Rovaniemi í Finnlandi í maí 2019. Þar varaði ráðherrann við því að Kínverjar gætu notað borgaralegar vísindarannsóknir sínar á norðurslóðum til að styrkja hernaðarlega viðveru sína.
Kínverjar brugðust strax illa við þessum orðum og sögðu þau í „andstöðu við almennt friðsamlega samvinnustrauma á norðurslóðum“.
Kínversk stjórnvöld segja að sókn þeirra í efnahags- og hermálum ógni engri þjóð. Spenna magnast hins vegar milli þeirra og Bandaríkjastjórnar vegna viðskiptastríðs. Þá hefur nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, sagt að hann vilji setja upp meðaldræg flugskeyti á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.